Flýtilyklar
Starfsemin á 17 stöðum
Margoft hefur komið fram að starfsemi Landspítala er dreifð á 17 staði á höfuðborgarsvæðinu. Það er daglegt brauð að starfsfólk og sjúklingar eru fluttir á milli húsa til að sinna þeirri þjónustu sem spítalinn veitir. Ýmsar vörur og búnað þarf einnig að selflytja á milli staða, viðkvæm sýni og dauðhreinsaðan búnað fyrir skurðaðgerðir. Flutningunum fylgir verulegt óhagræði og sýkingarhætta en síðast en ekki síst geta þeir tafið meðferð sjúklinga og þeir sannanlega ræna tíma frá mikilvægum verkefnum starfsfólks Landspítalans.
Hvar eru svo þessir 17 staðir og hvaða starfsemi er um ræða?
Stærsti hluti starfseminnar er á Landspítala í Fossvogi og við Hringbraut. Öldrunarlækningadeildir eru á Landakoti við Túngötu, endurhæfingardeildir á Grensás við Álmgerði, líknardeild og Rjóður við Kópavogsbraut og endurhæfing fyrir fólk með geðraskanir er á bæði Kleppi og Laugarásvegi.
Blóðbankinn er við Snorrabraut, rannsóknarstofur og sjúkrahótel í Ármúla, barna- og unglingageðdeild er á Dalbraut, hluti göngudeildar geðdeildar er á Skólavörðustíg, vettvangsteymi geðdeildar er á Reynimel, rekstrarsvið Landspítala er í Heilsuverndarstöðinni við Barónstíg og þar eru einnig staðsettar rannsóknarstofur. Þvottahús og sótthreinsunardeild eru við Tunguháls, hjúkrunardeild er á Vífilstöðum, skrifstofur á Eiríksgötu og augndeildin er við Þorfinnsgötu.
Í nýjum sameinuðum spítala við Hringbraut má sameina fjölmarga þætti starfseminnar á einum stað, með ómældu hagræði fyrir sjúklinga, starfsfólk og aðstandendur. Öryggi sjúklinga verður mun betur tryggt, dýrmætum tíma starfsfólks betur varið og í öllu falli verður um langtum skynsamari nýtingu á fjármunum að ræða.
Þetta eru mjög veigamikil rök þegar kemur að byggingu nýs spítala fyrir landsmenn.