Hvers vegna nýbyggingu fyrir starfsemi Landspítala?

Gömul hús

Meirihluti (54%) bygginga Landspítala var reistur fyrir 1970, elsta húsið er 84 ára gamalt og þar er gjörgæsludeild til húsa. Aðeins 8% bygginga var byggð á síðustu 25 árum. Hlutverk og starfsemi sjúkrahúsa hefur síðan tekið gífurlegum breytingum og svara húsin því hvorki nútíma þörfum né kröfum. Viðhaldskostnaður húsanna er mjög mikill, aðbúnaður sjúklinga og starfsfólks er víða óviðunandi og ekki er hægt að koma nýtíma tæknibúnaði fyrir í svo gömlum húsum.

Öryggi

Vinnuumhverfi starfsmanna hefur afgerandi áhrif á tíðni mannlegra mistaka á sjúkrahúsum. Samhæfð starfsheild og aukin sjálfvirkni, til dæmis við meðferð lyfja, eykur bæði öryggi sjúklinga og hraða vinnunnar. Þrengslin eru alvarlegasta ógnin við öryggi því  auknar líkur eru á því að sjúklingarnir smitist af þeim sem deila með þeim herbergjum.

Árangur

Rannsóknir sýna að sterk tengsl eru milli aðbúnaðar sjúklinga og árangurs í lækningum. Þar vegur þyngst bætt vígstaða gegn útbreiðslu sýkinga, friðhelgi einkalífs sjúklinga og bætt aðstaða aðstandenda. Með eðlilegum tengslum starfseininga næst bætt flæði starfsins sem fækkar mannlegum mistökum og tryggir öryggi sjúklinganna betur en nú er.  

Styttri legutími

Rannsóknir sýna að með bættum aðbúnaði sjúklinga, svo sem dvöl í einbýli, þá styttist legutími á sjúkrahúsum. Sjúklingar fá meira næði, sofa og hvílast betur í erfiðum veikindum. Einnig eru færri sýkingar á sjúkrahúsum þar sem aðbúnaður sjúklinga er góður.  Ný tækni t.d. við skurðaðgerðir sem ekki er hægt að koma við í núverandi húsnæði styttir legutíma og í sumum tilfellum geta sjúklingar fengið meðferðina á dagdeild sem ekki er hægt í dag. Það er mikill ávinningur fyrir sjúklinga að þurfa ekki að leggjast inn á sjúkrahús, sé hægt að komast hjá því. 

Hagræðing í rekstri

Varla þarf að fjölyrða um hvert hagræði er að því að losna við 9.000 flutninga sjúklinga spítalans ár hvert á milli starfsstöðva í Fossvogi og Hringbraut, 25.000 ferðir með rannsóknasýni og fjölmargar ferðir starfsfólks. Í sameinuðu húsnæði næst einnig faglegt hagræði í sameiningu vakta og þannig betri nýtingu sérhæfðrar þekkingar.

Þróun í tækni

Nýjungar í greiningu og meðferð sjúkdóma sem ekki er unnt að veita í dag hér á landi, verða að veruleika í nýju húsnæði. Ný tæki sem nauðsynleg eru fyrir framþróun heilbrigðisþjónustu er í mörgum tilvikum ekki hægt að koma fyrir í eldri byggingum. Má þar nefna svokallað PET scan. Slík tækni hefur verið til staðar á stærri háskólasjúkrahúsum í mörg ár og er nú til á flestum stærri sjúkrahúsum á Norðurlöndum. Mikilvægasta notkun þess er við greiningu og meðferð krabbameina, sem verður mun markvissari en ella. Tækið er í auknum mæli einnig nýtt við greiningu sjúkdóma í miðtaugakerfi og í meðferð hjartasjúkdóma. Einnig má nefnda nýja tækni við skurðaðgerðir sem styttir verulega legutíma og er til mikilla þæginda fyrir sjúklinga. Tækninni verður ekki við komið án nýbygginga Landspítala.

Eftirsóknarverður vinnustaður

Ávinningur fyrir starfsfólk er ekki síður mikilvægur. Landspítali þarf að vera eftirsóknarverður vinnustaður sem stenst samburð við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það er lykilforsenda þess að ungt og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk skili sér heim að loknu framhaldsnámi erlendis. Mikið af ungu fólki fer til annara landa til að sérmennta sig og afla sér nýrrar þekkingar, sem þróast mjög hratt í heilbrigðisvísindagreinum. Það er fyrst og fremst ungt fólk sem flytur nýja þekkingu til landsins og eru starfsfólk framtíðarinnar. Framtíðin er döpur fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi ef vel menntað fólk ílengist erlendis að loknu framhaldsnámi. Við megum í raun engan tíma missa í þessu tilliti því hár meðalaldur í sumum greinum heilbrigðisstétta er verulegt áhyggjuefni og lítil endurnýjun hefur átt sér stað síðastliðin ár. Ungt fólk bíður með að flytja heim meðan ekkert fréttist af nýbyggingu Landspítala. 

Hvernig er gert annars staðar á Norðurlöndum?

Í helstu nágrannalöndum fer nú fram mikil uppbygging sjúkrahúsa, Danir eru að fara að setja um 1200 milljarða í uppbyggingu sinna bráðasjúkrahúsa, Norðmenn eru að ljúka sinni uppbyggingu, Svíar eru t.d. að byggja við Karólínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi og Færeyingar eru að byggja við Landsjúkrahúsið í Þórshöfn. Landspítali er að dragast illilega aftur úr í húsnæðismálum varðandi aðbúnað og öryggi sjúklinga, starfsemina, starfsfólk og notkun nýrra lækningatækja sem kalla á öðruvísi húsnæði. Þeirri þróun verður að snúa við. 

 

Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is