Hringbraut besti kosturinn fyrir nýbyggingar Landspítala

Hringbraut besti kosturinn fyrir nýbyggingar Landspítala
Grein Þorkels Sigurlaugssonar í Mogganum 24.2.18

Nú er enn eitt málið að koma upp á Alþingi þar sem ætlunin er að láta tugi aðila verja dágóðum tíma í að senda umsögn um það sem kallað er "óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Þingnefnd og þingmenn þurfa svo að verja ómældum tíma í að rýna þessar umsagnir. Þingsályktunartillagan er svohljóðandi: 

Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að framkvæma óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús. Ráðherra leiti ráðgjafar hjá erlendum aðilum sem og innlendum fagaðilum sem verði falið að gera úttekt á mögulegri staðsetningu, m.a. með tilliti til fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismála. Niðurstöður greiningarinnar verði birtar með aðgengilegum hætti. Ráðherra flytji Alþingi skýrslu um niðurstöðurnar eigi síðar en í maí 2018.

Vakin er athygli á grein Þorkels Sigurlaugssonar í Morgunblaðinu 24.2.18, en þar er fjallað um og svarað ýmsu sem er staðhæft í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem er hér að neðan. 

Greinargerð með tillögunni er svohljóðandi.

    Á árunum 2001–2008 skrifuðu íslenskri og erlendir sérfræðingar fjölmargar álitsgerðir og í flestöllum var komist að þeirri niðurstöðu að best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað. Sérfræðingarnir sem sömdu álitin töldu hins vegar að ef ekki væri hægt að byggja nýtt sjúkrahús frá grunni á nýjum stað væri best að byggja við sjúkrahúsið í Fossvogi eða gamla Landspítalann við Hringbraut. Niðurstaðan, að byggja við Landspítalann við Hringbraut, var byggð á aðalskipulagi Reykjavíkur 2001–2024 en allar forsendur skipulagsins eru brostnar, ekkert þeirra umferðar- og skipulagsúrræða sem þar er reiknað með er í gildi í núna. Núverandi staðarval virðist því byggjast á úreltu skipulagi.
    Í skýrslu, sem unnin var af Háskólanum á Bifröst og Rannsóknarstofnun atvinnulífsins fyrir Samtök atvinnulífsins í nóvember 2015, kom m.a. fram að Hringbraut hentaði ekki sem framtíðarstaðsetning þjóðarsjúkrahússins og tekið var til að fjárhagslegur ávinningur annarrar staðsetningar væri töluverður.
    Í úttekt samtakanna um betri spítala á betri stað, sem gerð var í júní 2015, sagði að kostnaður við byggingu og reksturs nýs þjóðarsjúkrahúss væri mismunandi eftir staðsetningum. Samtökin báru saman þrjá staði. Í fyrsta lagi viðbyggingar við gamlar byggingar á Hringbraut, viðbyggingu við spítalann í Fossvogi og byggingu nýs spítala frá grunni á öðrum stað, sem væri nýr staður nær búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins og við meginumferðaræðar. KPMG fór yfir útreikningana, skoðaði forsendur og staðfesti útreikningana miðað við gefnar forsendur. Samanburðurinn sýndi að hagkvæmara væri að byggja í Fossvogi en við Hringbraut og enn hagkvæmara væri að reisa nýtt þjóðarsjúkrahús frá grunni á nýjum stað.
    Meginmarkmið þessarar tillögu er að gerð verði óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýja þjóðarsjúkrahúsið. Gera þarf faglega staðarvalsgreiningu til að sjá hvar hagkvæmast og best væri að byggja nýtt þjóðarsjúkrahús. Til þess þarf óháða fagmenn svo sem skipulagsfræðinga, sjúkraflutningamenn, þyrluflugmenn, verkfræðinga, viðskiptafræðinga, umferðarfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk. Fagfólki yrði falið að gera úttekt á mögulegum staðsetningum út frá fjárhags-, gæða-, samgöngu-, umferðar- og öryggismálum. Niðurstöðurnar þyrfti að birta með aðgengilegum hætti fyrir allan almenning og stjórnmálamenn þannig að glögglega megi átta sig á hvernig hver staður kemur út á helstu mælikvörðum sem máli skipta.

--------------------------

Flestir sjá vonandi hversu undarleg og gildishlaðin þessi greinargerð er. Spítalinn okkar vill benda á að ákvörðun um nýja uppbyggingu Landspítala við Hringbraut er aftur á móti vel ígrunduð og rækilega undirbúin gagnstætt því sem hér er haldið fram. 

Sigríður Sigþórsdóttir, arkitekt hjá Basalt arkitektum segir m.a. "að óháðir aðilar hafi ítrekað skoðað staðsetningu nýbygginga Landspítala og alltaf komist að sömu niðurstöðu, Hringbrautin er besta staðasetning með tilliti til allra þátta sem skoða þarf.  Þá nefndir Sigríður að í næsta nágrenni við Vífilstaði  sé eldstöðin Búrfellsgjá, því sé Hringbrautin auðveldari í hönnun en spítali á Vífilstöðum". Ekki er ljóst hvað þetta vegur þungt, en all hefur áhrif. 

Sama hefur oftar en einu sinni komið fram í máli Ásdísar Hlökk Theódórsdóttur, forstjóra Skipulagsstofnunnar. Hún segir að m.a. að núverandi skipulagstillögur við Hringbraut falli mun betur að þeirri byggð og starfsemi sem fyrir er í nágrenninu en eldri skipulagstillögur gerðu.

Tillagan er nú til umsagnar hjá fjölmörgum aðilum m.a. hjá Spítalanum okkar. 

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er fjöldinn allur af rangfærslum um Hringbrautarverkefnið til að blekkja umsagnaraðila og fá þá til að skrifa jákvæða umsögn um þessa furðulegu tillögu. Þingsályktunartillagan er dæmi um tillögu sem er eins hlutdræg og ófagleg og hugsast getur og virðist vera til þess ætluð að leggja stein í garð núverandi Hringbrautaverkefnis og nýta það ákveðnu stjórnmálaafli sér til framdráttar í komandi borgarstjórnarkosningum. Þetta er pólitískur poppulismi byggður á röngum upplýsingum Samtakanna betri spítala á betri stað. Spítalinn okkar vill því vara umsangaraðila við því að taka trúanlegt það sem í greinargerðinni segir. Mun Spítalinn okkar halda áfram að upplýsa umsagnaraðila nánar um þetta. Að halda að hægt sé að birta einhverja trúverðuga niðurstöðu um þessa greiningu í maí n.k. er dæmigert um þá veruleikafirringu sem einkennir þessa tillögu. 

Umsagnaraðilar að þingsályktunartillögu um þessa svokölluðu óháða, faglega staðarvalsgreiningu fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús eru eftirfarandi, sjá lista.

Umsagnaraðilar láta vonandi í sér heyra. Öllum er líka frjálst að senda inn umsögn.

Umsögn geta allir sent inn fyrir 2.3. n.k.

Þingskjalið er hægt að sækja á vef Alþingis:http://www.althingi.is/altext/148/s/0155.html

Vakin er athygli á því að nefndastarf fastanefnda Alþingis er rafrænt. Óskað er eftir að umsagnir og erindi verði send á rafrænu formi. Sjá nánar tengil varðandi leiðbeiningar um umsagnir. 

www.althingi.is/vefur/nefndaumsagnir.html

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is