Heilbrigðisráðherra skipar samstarfsráð um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut

Þær jákvæðu fréttir bárust frá stjórnarráðinu að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefði skipað samstarfsráð um uppbyggingu Landspítala við Hringbraut. 

Samstarfsráðinu er ætlað það hlutverk að styrkja samvinnu aðila um uppbyggingu Landspítalans og efla samráð og miðlun upplýsinga þannig að áætlanagerð, framkvæmdir og forgangsröðun taki sem best mið af áherslum þeirra sem tengjast verkefninu.

Á vef stjórnarráðsins kemur fram að samstarfsráðið muni starfa á vegum velferðarráðuneytisins og vera heilbrigðisráðherra til samráðs og ráðgjafar meðan á uppbyggingunni stendur, auk þess sem því er ætlað að auka og efla yfirsýn ráðuneytisins með verkefninu í heild á framkvæmdatímanum.

Í samstarfsráðinu situr öflugur hópur fólks: Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri velferðarráðuneytisins fer með formennsku og aðrir fulltrúar eru Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og Erling Ásgeirsson, formaður stjórnar Nýs Landspítala ohf. Starfsmaður samstarfsráðsins er Dagný Brynjólfsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Stjórn Spítalans okkar óskar samstarfsráðinu góðs gengis í afar mikilvægum störfum sínum!

Hlekkur á frétt stjórnarráðsins er hér.

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is