Fréttir frá stjórn

Bréfið er hér að neðan:

Ágæti félagi

Framundan er málþing á vegum Spítalans okkar, það þriðja frá stofnun samtakanna. Málþingið verður haldið fimmtudaginn 6. október og hefst kl. 16 á Hótel Natura. Yfirskrift málþingsins er Spítalinn rís og við höfum fengið góða gesti til að flytja erindi. Þeir eru Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar, Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala og Páll Matthíasson forstjóri Landspítala. Lokorð flytur borgarfulltrúinn Heiða Björg Hilmisdóttir.

Stjórn Spítalans okkar horfir til framtíðar við skipulagningu málþingsins og veltir upp spurningum á borð við: Hvaða þýðingu hefur nýtt og fullbúið sjúkrahús fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu? Hvernig verður framkvæmdum háttað á næstu árum? 

Bygging sjúkrahótels við Landspítala gengur vel. Þegar hafist var handa við byggingu þess þurfti að loka götunni frá Barónsstíg að aðalinngangi spítalans. Ný aðkeyrsla var opnuð í  síðustu viku þegar heilbrigðisráðherra og forsvarsfólk sjúklingasamtaka klipptu í sameiningu á borða á sólríkum morgni.

Sjúkrahótelið er hluti af fyrsta áfanga nýbygginga Landspítala við Hringbraut og verður tekið í notkun á næsta ári. Á sjúkrahótelinu verða 75 herbergi og það mun gjörbreyta aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur. Ef þú vilt fræðast nánar um sjúkrahótelið bendum við á heimasíðu Nýs Landspítala, www.nyrlandspitali.is og Fésbókarsíðu Spítalans okkar.

Eins og við höfum áður fjallað um í fréttabréfi til félaga var á haustmánuðum 2015 samið við Corpus3  um fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans en hann er stærsta bygging fyrsta áfanga uppbyggingar Landspítala við Hringbraut. Meðferðarkjarninn mun hýsa alla bráðastarfsemi Landspítala ásamt legudeildum með um 210 sjúkrarúmum. Hönnunarvinnu við meðferðarkjarnann miðar vel og hundruðir starfsmanna Landspítala hafa tekið þátt í henni.

Þegar fyrsta áfanga uppbyggingar Landspítala við Hringbraut lýkur verður hægt að ljúka sameiningu spítalanna í Reykjavík sem hófst árið 2000. Við horfum því vongóð til framtíðar.

Við hvetjum þig til að fylgjast með fréttum af framkvæmdum við nýbyggingar Landspítala.

Kær kveðja,

Stjórn Spítalans okkar

Anna, Jón Ólafur, Oddný, Þorkell, Gunnlaug, Kolbeinn og Sigríður.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is