Fréttabréf frá stjórn samtakanna

Reykjavík 25. nóvember 2021 

Ágæti félagi

Nokkuð langt er liðið frá síðasta fréttabréfi stjórnar Spítalans okkar. Rólegt var hjá stjórninni á fyrri helmingi ársins en nú höfum við tekið upp þráðinn að nýju. Á dögunum funduðum við með Gunnari Svavarssyni, framkvæmdastjóra NLSH sem fór yfir stöðu Hringbrautarverkefnisins og með Unni Brá Konráðsdóttur, formanni stýrihóps um heildaruppbyggingu húsnæðis LSH. Þetta voru mjög gagnlegir fundir þar sem við gátum komið að áherslum samtakanna sem og fengið dýrmætt tækifæri að fylgjast með uppbyggingu nýs Landspítala.   

Markmið landsamtakanna Spítalinn okkar er að stuðla að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala, þannig að húsakostur, tæknibúnaður og aðstaða sjúklinga og starfsfólks þjóni nútímaþörfum. Samtökin hafa unnið eftir bestu getu að því markmiði síðastliðin sex ár og fagna þeim gríðarmiklu framkvæmdum sem nú standa yfir á Hringbrautarlóðinni.

Mikill gangur er í framkvæmdum við meðferðarkjarnann og senn mun líða að því að byggingin rísi vel upp úr jörðinni. Með góðfúslegu leyfi NLSH birtum við myndir þar sem sjá má móta fyrir veggjum á kjallara hússins.                                                                                                                    
Undirbúningur fyrir byggingu rannsóknarhúss er komin vel á veg, verið er að undirbúa jarðveginn og hönnun hússins er á teikniborðinu. Áform eru um að á næstu árum verði bygging húsnæðis fyrir dag- og göngudeildir Landspítala undirbúin, en heilbrigðisráðherra hefur falið NLSH að vinna þarfagreiningu fyrir þá byggingu. 

Nýverið var hlutverk NLSH við uppbyggingu Landspítala endurskilgreint. NLSH hefur nú víðtækara hlutverk, m.a. að undirbúa ákvarðanir um nýtingu eldri mannvirkja og framkvæmdir þeim tengdum, í samstarfi við stýrihóp, sem skipaður var haustið 2020 af heilbrigðisráðherra. Stýrihópurinn hefur yfirsýn yfir öll verkefni uppbyggingar LSH, staðfestir áætlanir og tryggir að verkefnið lúti áherslum stjórnvalda hverju sinni. 

Á döfinni er svo hönnun 3.800 fm viðbyggingar við Grensásdeild og lokað útboð vegna húss Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands. Öll þessi uppbygging er mikilvæg til eflingar starfsemi Landspítala sem sjúkrahúss og menntastofnunar fyrir heilbrigðisstéttir framtíðarinnar.  

Á aðalfundi Spítalans okkar síðastliðið vor var ákveðið að samtökin beini kröftum sínum að nýbyggingu fyrir geðþjónustu Landspítala á næstu árum. Setja þarf byggingu nýs húsnæðis á dagskrá stjórnvalda og hefjast handa við að þarfagreina og hanna húsnæðið. Miklar framfarir hafa orðið á síðustu árum í meðferð geðsjúkdóma og því er knýjandi þörf fyrir nýtt húsnæði sem svarar nútímaþörfum og þekkingu. Húsnæði bráðadeilda geðþjónustunnar við Hringbraut er komið til ára sinna. Deildirnar eru þröngar og dimmar, flest herbergin eru tveggja manna, sem hentar illa einstaklingum í bráðaástandi og aðstandendum þeirra. Vitað er að slík aðstaða tefur fyrir bata og getur valdið truflun á meðferð. Aðstaða til útiveru og hreyfingar er einnig takmörkuð en hreyfing er mikilvæg fyrir andlega og líkamlega vellíðan og flýtir fyrir bata. Nútímaleg aðstaða fyrir sjúklinga sem og fjölskyldur og ástvini þeirra þarf að vera  í forgrunni. 

Nægt landrými er á Hringbrautarlóðinni til að reisa byggingu fyrir bráðastarfsemi geðþjónustunnar. Best er og hagkvæmast að starfsemin verði sem næst annarri bráðastarfsemi Landspítala enda verður móttaka fyrir einstaklinga með bráða geðsjúkdóma í nýja meðferðarkjarnanum. Mikilvægt er að góð sátt verði um þetta verkefni og að horft verði jöfnum höndum á bráðaþjónustu, göngudeildarþjónustu, almenna endurhæfingu og forvarnir.

Spítalinn okkar mun á næstu mánuðum fylgja eftir áformum um mikilvægi nýbygginga fyrir geðþjónustu Landspítala og hvetja stjórnvöld til að taka ákvarðanir um að hafist verði handa hið fyrsta við þarfagreiningu, endanlegt staðarval og hönnun húsnæðis.  

Nú í nóvember verður félagsgjald samtakanna Spítalinn okkar innheimt. Félagsgjaldið hefur verið óbreytt frá stofnun samtakanna, eða 2.500 krónur. Tekjurnar eru mikilvægar fyrir starfsemi okkar, sérstaklega fyrir kynningarþátt samtakanna sem er snar þáttur í starfseminni. 

Við hvetjum þig til að fylgjast með framkvæmdunum á heimasíðu NLSH og fréttum af starfi samtakanna á heimasíðunni www.spitalinnokkar.is og á Fésbókarsíðu samtakanna.  

Stjórnarfólk þakkar fyrir stuðning þinn við samtökin.

Kær kveðja,

Stjórn Spítalans okkar

Anna, Ásgeir, Guðrún, Gunnlaug, Jón Ólafur, Oddný og Þorkell.

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is