Flýtilyklar
Aðalfundur Spítalans okkar 23. apríl 2024
Aðalfundur landsamtakanna Spítalinn okkar haldinn þriðjudaginn
23. apríl 2024 kl. 15.00 á Nauthól, Nauthólsvegi 106
Formaður Anna Stefánsdóttir setti fund kl.15:00. Í upphafi máls síns rakti hún tildrög að stofnun samtakanna og nefndi þar til sögunnar þá Jóhannes Gunnarsson og Magnús Pétursson sem auk hennar hefðu beitt sé mjög fyrir því að samtökin Spítalinn okkar voru stofnuð. Einnig rakti Anna helstu viðfangsefni sl. 10 ára. Anna sem verið hefur formaður samtakanna frá upphafi tilkynnti að hún gæfi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku. Að svo mæltu stakk hún upp á Helga Má Halldórssyni sem fundarstjóra og Erling Ásgeirssyni sem fundarritara og var það samþykkt.
Helgi Már tók við fundarstjórninni og úrskurðaði fundinn löglegan og rétt til hans boðað. Gengið var til dagskrár í samræmi við 7. grein laga samtakanna.
1.Skýrsla stjórnar. Fráfarandi formaður Anna Stefánsdóttir lagði fram og mælti fyrir skýrslu stjórnar fyrir starfsárið 2023 (fylgiskjal nr.1).Skýrslan var samþykkt með lófataki samhljóða án umræðu.
2. Reikningar lagðir fram. Anna Lilja Gunnarsdóttir gjaldkeri samtakanna lagði fram reikninga ársins 2023. Fjárhagur samtakanna er traustur skuldir engar og óráðstafað eigið fé kr.1.655.139,- Kjörnir skoðunarmenn þau Guðmundur Sigfinnsson og Lilja Stefánsdóttir árituðu reikninginn athugasemdalaust.
3. Breytingar á samþykktum. Þorkell Sigurlaugsson varaformaður mælti fyrir tillögu að breytingu á lögum samtakanna. Markmið félagsins skv. tillögu að nýjum lögum Spítalans okkar er að auka skilning og efla stuðning við uppbyggingu, aðstöðu og mönnun Landspítala í samstarfi við framkvæmdastjórn Landspítala, NLSH ohf. , stjórnvöld og aðra hagaðila þannig að:
- Landspítala verði gert kleift að sinna sínu lögbundna hlutverki sem aðalsjúkrahús landsins og háskólasjúkrahús; þ.e. veita annars og þriðja stigs heilbrigðisþjónustu, annast kennslu og sérmenntun í heilbrigðisgreinum og vera vettvangur fræðastarfa og vísindarannsókna.
- Bætt verði aðstaða til menntunnar til að styðja við tækninýjungar og mönnun á sviði heilbrigðisþjónustu þannig að heilbrigðiskerfið uppfylli þarfir sjúklinga í nútíð og framtíð.
- Stuðningsumhverfi og samstarf Landspítala við tengda heilbrigðisstarfsemi verði eflt.
- Samfélagið sé upplýst um þarfir fyrir aðstöðu, tækni og húsnæði til spítalaþjónustu vegna lýðfræðilegra breytinga og framþróunar í heilbrigðisþjónustu.
Með þessum markmiðum og áhersluatriðum er starfsemi Spítalans okkar aukin, en fyrst og fremst víkkuð út. Þessi áherslubreyting er tímabær og nauðsynleg til þess að fylgja betur eftir núverandi húsnæðisuppbyggingu og auka jafnframt stuðning við atriði sem snúa að menntun og stuðningi við aðra þætti sem snúa að almennu stuðningsumhverfi Landspítala.
Landspítali er lykilstofnun í að koma heilbrigðiskerfi okkur í fremstu röð og Spítalinn okkar vill styðja við það verkefni m.a. með því að auka tengsl sín við aðrar heilbrigðisstofnanir eins og að framan greinir, en ekki síst notendur þjónustunnar og þeirra hagsmunasamtök. Spítalinn okkar vinni þannig áfram, en með víðtækari hætti að því að gera Landspítala betur kleift að rækja hlutverk sitt með hagsmuni sjúklinga, starfsfólks og allra landsmanna að leiðarljósi auk þeirra ferðamanna sem sækja landið heim.
Þessum áherslubreytingum var vel tekið og þær samþykktar samhljóða.
5. Ákvörðun félagsgjalds. Stjórnin lagði til óbreytt félagsgjald fyrir árið 2024 kr. 2.500. Var tillaga stjórnarinnar samþykkt.
6. Stjórnarkjör. Anna Stefánsdóttir formaður samtakanna frá upphafi gefur ekki kost á sér til endurkjörs sem og Anna Lilja Gunnarsdóttir gjaldkeri og Guðrún Ágústsdóttir ritari. Í þeirra stað bjóða sig fram þær Anna Sigrún Baldursdóttir, María Heimisdóttir og Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir. Erling Ásgeirsson, Gunnlaug Ottesen og Jón Ólafur Ólafsson bjóða sig fram til áframhaldandi stjórnarsetu. Þorkell Sigurlaugsson gefur kost á sér sem formaður.
Framboð til stjórnar samtakanna Spítalinn okkar fyrir árið 2024: Þorkell Sigurlaugsson formaður kosinn sérstaklega með lófaklappi. Aðrir í stjórn: Anna Sigrún Baldursdóttir, María Heimisdóttir Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir, Gunnlaug Ottesen, Jón Ólafur Ólafsson og Erling Ásgeirsson. Stjórnin var einnig kosin með kosin með lófaklappi. Stjórnin að undanteknum nýkjörnum formanni mun skipta með sér verkum á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund.
7. Önnur mál. Gunnar Svavarsson kvaddi sér hljóðs og ávarpaði Guðrúnu Ágústdóttur. Guðrún var formaður dómnefndar í arkitektasamkeppni þar sem hönnuðir að nýbyggingu spítalans voru valdir. Gunnar þakkaði Guðrúnu fyrir hennar aðkomu og uppskar hún gott lófaklapp fundarmanna.
Að lokum þakkaði nýkjörinn formaður Þorkell Sigurlaugsson, Önnu Stefánsdóttur fráfarandi formanni fyrir samstarfið og fyrir að vera vakandi og sofandi yfir samtökunum sl. 10 ár. Færði hann Önnu örlítinn þakklætisvott í fljótandi formi að skilnaði. Formaður þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum fyrir samstarfið og bauð nýja velkomna til starfa. Þakkaði fundarmönnum fyrir fundarsetuna og sleit aðalfundinum.
Aðalfundi slitið kl. 16:00