Flýtilyklar
25. fundur stjórnar
26.10.2015
25. stjórnarfundur haldinn mánudaginn 8. júní 2015 kl. 16:00 í Heilsuverndarstöðinni.
Mætt voru: Anna Stefánsdóttir, Gunnlaug Ottesen, Jón Ólafur Ólafsson, Sigríður Rafnar Pétursdóttir og Þorkell Sigurlaugsson. Forföll: Kolbeinn Kolbeinsson og Oddný Sturludóttir.
Gestur fundarins var Magnús Heimisson almannatengill.
Anna setti fundinn og var því næst gengið til dagskrár.
- Fundargerð 24. fundar samþykkt og undirrituð.
- Málþing á haustmisseri – efnistök og undirbúningur. Formaður rifjaði upp umræðu stjórnarmanna um sama mál frá fundi stjórnar þann 27. apríl. Í framhaldi spunnust töluverðar umræður um markmið með málþinginu, efnistök, dagskrá, tímasetningu og annan undirbúning. Ákveðið var að halda málþingið þann 22. september frá 16:00 til 18:00. Formanni var falið að vinna tillögu að dagskrá út frá þeim hugmyndum sem fram komu á fundinum.
- Kynningarmál. Magnús fór yfir samantekt á umfjöllun fjölmiðla um uppbyggingu á húsnæði Landspítala. Fram kom að töluverð umræða væri í fjölmiðlum og nokkuð bæri á umfjöllun um staðsetninguna. Rætt var að meginmarkmið Spítalans okkar væri að halda áfram að kynna mikilvægi þess að framkvæmdir við uppbygginguna myndu ekki dragast enn frekar á langinn.
- Samstarf við Þekkingarmiðlun. Magnús fór yfir stöðuna á samstarfi við Þekkingarmiðlun um gerð á kynningar-myndbandi fyrir samtökin. Rætt var um markmið með myndbandinu, efnistök, handrit og kostnað. Ákveðið var að fela formanni að vinna málið áfram með almannatengli út frá þeim humyndum sem ræddar voru á fundinum.
- Nýr upplýsingabæklingur. Ný útgáfa af einblöðungi með upplýsingum um samtökin, sem sendur var stjórnarmönnum fyrir fundinn, var samþykktur.
- Greinaskrif Rætt var um greinaskrif í fjölmiðla um uppbyggingu á húsnæði Landspítala. Rætt var um mikilvægi þess að ýta undir jákvæð greinaskrif og mikilvægi þess að ekkert mætti tefja framkvæmdir við uppbygginguna því tafir væru nú þegar orðnar of miklar. Ákveðið var að fela formanni að vinna málið áfram út frá þeim hugmyndum sem ræddar voru á fundinum.
- Önnur mál
- Rætt var um aðgang að fjölmiðlavakt Creditinfo. Almannatengill mun senda stjórnarmönnum aðgangsupplýsingar að fjölmiðlavaktinni.
- Rætt var um fjármál samtakanna. Formaður er með fjármögnunarverkefni í vinnslu.
Fundi slitið kl. 18:00.
Næsti fundur verður mánudaginn 22. júní kl. 16:00 í Heilsuverndarstöðinni.
Gunnlaug Ottesen ritaði fundargerð.