Flýtilyklar
Þjóðarsátt um endurnýjun og uppbyggingu Landspítala
Á síðasta starfsdegi Alþingis þann 16. maí sl. ályktaði þingheimur einum rómi að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi á endurnýjun og uppbyggingu Landspítala við Hringbraut í Reykjavík og hefja framkvæmdir þegar fjármögnun hefur verið tryggð. Í rökstuðningi Velferðarnefndar segir m. a.:
"Það er aðkallandi að ráðist sé í endurnýjun og uppbyggingu húsnæðis Landspítala til að stuðla að áframhaldandi heilbrigðiskerfi sem stenst alþjóðlegan gæðasamanburð. Mikilvægt er að stjórnvöld haldi áfram þeirri vinnu sem unnin hefur verið og stefni að uppbyggingu sjúkrahússins á þeim grunni." Ennfremur segir að vaxandi stuðningur sé við verkefnið eins og t.d. stofnun nýrra samtaka, Spítalinn okkar, ber vott um.
Velferðarnefnd tekur ekki afstöðu til fjármögnunar og telur rétt að sérfræðingar stjórnvalda útfæri það með hvaða hætti best sé að tryggja fjárveitingu til verkefnisins svo ekki komi niður á mikilvægum þáttum í rekstri ríkissjóðs. Nefndin bendir á mögulega fjármögnun með sérstakri tekjuöflun, t.d. með sölu ríkiseigna.
Nefndin telur mikilvægt að þverpólitísk samstaða ríki um Landspítala og telur samþykkt þessarar tillögu til þess fallna að skýra stefnu stjórnvalda og að hraða uppbyggingu sjúkrahússins.
Samþykkt þessarar þingsályktunar eru mikil gleðitíðindi okkur sem að landsamtökun um uppbyggingu nýs núsnæðis Landspítala, Spítalinn okkar, og hvetur okkur til þess að blása rækilega í þær glæður vonar sem með þessu hafa kviknað.
Hér er hægt að hlusta á orð ráðamanna þegar atkvæði voru greidd.
Hér má hlusta á Kristján L. Möller alþingismann í þættinum Í bítið á Bylgjunni 21 maí 2014 um mikilvægi endurnýjunar og uppbyggingar á húsnæði Landspítala