Spítalinn okkar á fundi Pírata

Anna Stefánsdóttir fór yfir tilurð, markmið og tilgang samtakanna á málfundi Pírata sem haldinn var nýverið. Tilgangur samtakanna er að vinna að nýbyggingu og endurnýjun Landspítala, þannig að húsakostur og umhverfi sjúklinga, sem og aðstaða starfsfólks, þjóni nútímaþörfum. Markmið samtakanna eru sem fyrr að afla stuðnings meðal almennings og stjórnvalda á nauðsynlegum úrbótum á húsakosti spítalans.

Í erindi sínu fór Anna yfir þá staðreynd að á síðustu áratugum hefur sjúkrahúsþjónusta í hinum vestræna heimi þróast hratt og tekið örum framförum. Sú þróun mun halda áfram næstu áratugi. Samhliða því mun sérþekking heilbrigðisstarfsfólks taka miklum framförum og meðferð sjúkdóma verða tæknivæddari og flóknari. Ávinningurinn er sá að fleiri sjúklingar fá bót sinna meina.

Nýbygging meðferðarkjarna Landspítala er grundvöllur þess að Íslendingar haldi stöðu sinni meðal fremstu þjóða hvað heilbrigðisþjónustu varðar.

Anna fjallaði um meginþungann í starfi samtakanna sem er og hefur verið kynningarstarf. Samtökin hafa staðið fyrir fjölsóttum málþingum og heimsótt vinnustaði en einnig verið boðin og búin til að kynna allar hliðar uppbyggingar nýs Landspítala á fundum félagasamtaka sem hafa mörg hver beðið um kynningu af hálfu samtakanna. Höfuðáhersla samtakanna í öllu sínu kynningarstarfi hefur verið sú að byggt verði í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir. Sjónarmiðin sem þar vega þyngst eru: 

- Mikil vinna býr að baki þeim áætlunum, hvort sem um staðarval, skipulagsvinnu eða hönnun bygginga er að ræða. Sú vinna nær yfir 14 ára tímabil eða allt frá þeim tíma að LSH sameinaðist. Uppbygging Landspítala við Hringbraut er því lokahnykkurinn á því ferli

- Mikil þekking erlendis frá hefur verið leiðarljós vinnunnar og stuðst hefur verið við rannsóknir á byggingu og tilhögun sjúkrahúsa

- Mikil samstaða er meðal starfsfólks um framkvæmdina
 
- Ungt fólk í námi í heilbrigðisvísindum bindur vonir við að verkefnið klárist
 
- Engin rök eru fyrir nýju staðarvali, hærri byggingum eða nýrri hönnun
 
Anna reifaði einnig sjónarmið er varða hið mikilvæga samstarf háskólanna í Vatnsmýri við Landspítala. Fyrst ber þar að nefna að um 200 manns starfa bæði við Landspítala og í Háskóla Íslands og um 1.500 háskólanemar í heilbrigðisvísindum stunda hverju sinni nám við Landspítala. Landspítali er þannig öflugasta vísindasamfélag landsins sem HÍ nýtur góðs af í alþjóðlegum samanburði og þykir öfundsvert. Einnig má geta þess að Háskóli Íslands mun byggja húsnæði fyrir heilbrigðisvísindasvið á lóðinni við Hringbraut og einnig verður sú vísa aldrei of oft kveðin að í Vatnsmýrinni er orðið til og mun verða enn öflugra þekkingarsamfélag með fjölda fyrirtækja í t.d. líftækni, lyfjafræði. 
 

 

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is