Samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna undirritaður

Samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna undirritaður
Við undirskrift samningsins

Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skrifaði í dag undir samning við Corpus hópinn um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut. Meðferðarkjarninn er stærsta og flóknasta byggingin af nýbyggingum Landspítala.  Meðferðarkjarninn mun hýsa  alla bráðstarfsemi Landspítala, bráðmóttöku og slysadeild, skurðstofur, gjörgæsludeild, myndgreiningu og bráðalegudeildir.

Í fréttatilkynningu frá Nýjum Landspítala kemur fram að ákvæði samningsins snúa að fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og að hönnunin muni byggja á fyrirliggjandi forhönnun verksins sem þegar er lokið. Einnig kemur fram að allar skipulagsáætlanir hafa verið samþykktar vegna verkefnisins þ.e. svæðaskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag lóðarinnar við Hringbraut. Byggingin mun því rísa á lóð Landspítala við Hringbraut. Áætluð heildarstærð meðferðarkjarnans er um 58.500 m². Byggingin mun verða á 6 hæðum ofan götu og 5 hæðum neðan götu auk kjallara. Meðferðarkjarninn mun tengjast eldri byggingum á Landspítalalóðinni

Samninginn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Grímur M. Jónasson frá VSÓ ráðgjöf fyrir hönd Corpus hópsins. Corpus hópurinn samanstendur af fjórum fyrirtækjun: Basalt arkitektum, Hornsteinum arkitektum, verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar og VSÓ ráðgjöf.

Meðal viðstaddra voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og vottuðu þeir samninginn.

 

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is