Flýtilyklar
Samningur um fullnaðarhönnun meðferðarkjarna undirritaður
Heilbrigðisráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skrifaði í dag undir samning við Corpus hópinn um fullnaðarhönnun á meðferðarkjarna Landspítala við Hringbraut. Meðferðarkjarninn er stærsta og flóknasta byggingin af nýbyggingum Landspítala. Meðferðarkjarninn mun hýsa alla bráðstarfsemi Landspítala, bráðmóttöku og slysadeild, skurðstofur, gjörgæsludeild, myndgreiningu og bráðalegudeildir.
Í fréttatilkynningu frá Nýjum Landspítala kemur fram að ákvæði samningsins snúa að fullnaðarhönnun meðferðarkjarna og að hönnunin muni byggja á fyrirliggjandi forhönnun verksins sem þegar er lokið. Einnig kemur fram að allar skipulagsáætlanir hafa verið samþykktar vegna verkefnisins þ.e. svæðaskipulag, aðalskipulag og deiliskipulag lóðarinnar við Hringbraut. Byggingin mun því rísa á lóð Landspítala við Hringbraut. Áætluð heildarstærð meðferðarkjarnans er um 58.500 m². Byggingin mun verða á 6 hæðum ofan götu og 5 hæðum neðan götu auk kjallara. Meðferðarkjarninn mun tengjast eldri byggingum á Landspítalalóðinni
Samninginn undirrituðu Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra og Grímur M. Jónasson frá VSÓ ráðgjöf fyrir hönd Corpus hópsins. Corpus hópurinn samanstendur af fjórum fyrirtækjun: Basalt arkitektum, Hornsteinum arkitektum, verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar og VSÓ ráðgjöf.
Meðal viðstaddra voru Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans og vottuðu þeir samninginn.