Flýtilyklar
Mikilvægt að ráðast í framkvæmdir við nýjan Landspítala sem fyrst
Um annan spítala á öðrum stað
Sú umræða og áskorun hefur komið upp undanfarna daga að byggja eigi nýjan Landspítala á nýjum stað. Samtök sem kenna sig við „Betri spítala á betri stað“ hafa staðið fyrir auglýsingu um þetta efni og. Þar eiga fjölmargar fullyrðingar ekki við rök að styðjast. Sem stjórnarmaður í áhugamannasamtökum um uppbyggingu nýs landsspítala, „Spítalinn okkar“ hef ég kynnst því vel hvað búið er að vinna mikið og gott undirbúningsstarf á undanförnum árum þótt vissulega sé mikið undirbúningsstarf eftir. Samtökin líta ekki á það sem sitt hlutverk að berjast fyrir ákveðnum stað, en þegar lífið liggur við, þá verður ekki orða bundist. Að hvetja til hiks og umbyltingar á þessu verkefni getur haft afdrifaríkar afleiðingar.
Öll rök eru fyrir staðsetningu við Hringbraut
Rökin fyrir uppbyggingu við Hringbraut eru mjög afgerandi hvernig sem á málið er litið og eru hér nefnd nokkur dæmi.
- Við Hringbraut á svokölluðum BSÍ-reit við „bæjardyr“ Landspítala mun rísa samgöngumiðstöð fyrir allt höfuðborgarsvæðið m.a. fyrir Strætó og langferðabifreiðar. Þetta skiptir miklu máli í neikvæðri umræðu um umferðarmál.
- Í nágrenninu eru tveir öflugir háskólar, Íslensk erfðagreining, lyfjafyrirtæki og margvísleg önnur vísindastarfsemi. Háskóli Íslands er rannsókna- og kennsluháskóli á sviði læknisfræði, hjúkrunarfræði, lyfjafræði, verkfræði og fjölmargra annarra háskólagreina. Háskólinn í Reykjavík er einnig kennslu- og rannsóknarháskóli í fremstu röð hér á landi á sviði tækni- og verkfræði m.a. heilbrigðisverkfræði. Báðir þessir háskólar, nemendur þeirra og kennarar eiga í miklu samstarfi við Landspítala. Kennsla, rannsóknir og lækningar fara einfaldlega ekki bara fram í gegnum Internetið.
- Sífellt fleiri nemendur búa á stúdentagörðum í nágrenninu sem dregur úr umferð. Háskólaspítali er eins og nafnið gefur til kynna jafnframt kennslu- og rannsóknaspítali. Þangað sækja allir nemendur sína menntun og þjálfun og leggja jafnframt mikið af mörkum til reksturs spítalans og rannsókna.
- Samband sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Skipulagsstofnun ríkisins hefur samþykkt þetta staðarval. Forstjóri Skipulagsstofnunar hefur þar til viðbótar talið þennan stað þann besta á höfuðborgarsæðinu fyrir Landspítala.
- Landlæknir, forstjóri Landspítala og mikill fjöldi heilbrigðisstarfsmanna við Landspítala og víðar hafa bent á mikilvægi þess að ráðast í framkvæmdir við nýjan Landspítala sem fyrst. Læknar verða seint allir sammála um staðsetningu enda eðlilegt að skoðanir séu skiptar.
- Ef byggður verður nýr Landspítali á nýjum stað mun þjóðin þurfa að reka þrjá spítalaklasa til næstu áratuga. Einn bætist við á nýjum stað ef hann klárast þá einhvern tíma og áfram verða hinir tveir spítalarnir við Hringbraut og í Fossvogi um ófyrirsjáanlega framtíð. Af fenginni reynslu af stórum framkvæmdum mun eitt stykki nýr spítali aldrei klárast að fullu sbr. K-bygging Landspítala og Læknagarð sem eru lítil verkefni en hafa aldrei klárast.
- Ekkert liggur fyrir um það hvar betri spítali á betri stað ætti að vera og nýtt skipulags- og undirbúningsferli mundi taka fjölda ára. Áfram verður því spítali við Hringbraut um langa framtíð og nauðsynlegt að ráðast þar í ýmsar endurbætur og verið að hefja byggingu sjúkrahótels á svæðinu. Ekki verður forsvaranlegt að loka spítalanum í Fossvogi á næstunni enda mun álag á spítalann vaxa hratt á næstu árum. Þetta mun kalla á enn frekari óhagkvæmni í rekstri.
Ákvörðun hefur verið tekin á öllum stjórnsýslustigum um uppbyggingu við Hringbraut
Ákvörðun hefur verið tekin á Alþingi og þar hafa verið samþykkt lög um það að Landspítali verði áfram við Hringbraut. Ýmsar leiðir eru færar fyrir ríkið að fjármagna verkefnið, en mun erfiðara að ráðast í helmingi stærra verkefni. Í svona mikilvægu og flóknu máli er mikill ábyrgðarhluti að reyna að setja verkefnið í uppnám með einhverjum pólitískum áskorunum og yfirlýsingum um miklu betri lausn. Talað er um að hægt sé að græða svo mikið á að selja núverandi landsvæði og byggingar Landspítala við Hringbraut. Og hverjum á að selja og hvenær? Við eigum ekki að byggja nýjan spítala með væntingar um að græða megi svo mikið af núverandi landsvæði og byggingum.
Það mun auðvitað ekki takast að brjóta niður þá samstöðu sem er og hefur verið um þetta verkefni. Það er aftur á móti mikilvægt að starfsfólk spítalans, unga fólkið, sem er að mennta sig á þessu sviði, og sjúklingar framtíðarinnar missi ekki trúna á því að verkefnið sé að fara loksins í gang. Við viljum ekki einhvern annan spítala á einhverjum öðrum stað. Þannig væri verið að gera tilraun til að ýta verkefninu yfir á nýtt Alþingi og næstu ríkisstjórn. Þegar ákvarðanir eins og þessar hafa verið teknar þá á öll þjóðin að standa á bak við hana og styðja með ráð og dáð. Það er full þörf á því.
Þorkell Sigurlaugsson, stjórnarmaður í Spítalanum okkar.