Gunnar Bragi með stórfurðulegan pistil

Stórundarlegur pistill hjá Gunnari Braga í Morgunblaðinu þann 6. febrúar síðastliðinn. Það er enginn að þagga niður umræðuna. Það er hættulegt að fresta Hringbrautarverkefni og halda að það sé hægt að koma með enn eina staðarvalsgreininguna. Það er mjög auðvelt að útiloka alla þá staði sem nefndir hafa verið, með mjög skýrum rökum. Það er dæmi um blekkingarnar að tala um að það þurfi allt í senn vegna Landspítala við Hringbraut: Miklubraut í stokk, Öskjuhlíðargöng og veg yfir Skerjafjörð og Borgarlínu fyrir yfir 100 milljarða. Eins og þetta sé allt fyrir Landspítala. Nýr spítali á nýjum stað myndi kosta eitthvað vel yfir 100 milljarða. 

Samgöngur til annarra staða sem nefndir hafa verið eru ekki greiðari en að Landspítala við Hringbraut. Keldur myndu kalla á algjöran uppskurð á vegakerfinu þar og Guð hjálpi þeim sem þurfa að komast á Vífilsstaði frá megin atvinnusvæðinu vestan Elliðáa síðdegis. Samgöngur að Landspítala í Fossvogi eru erfiðar og tenging við almenningssamgöngur lakari en við Hringbraut.  Miðja höfuðborgarsvæðisins er ekki miðjan frá þeim stað sem fólk býr, heldur frá þeim stað þar sem það er yfir daginn. Það eru líklega um 10.000-12.000 manns í háskólunum yfir daginn, gifurlegur fjöldi í Borgartúni, miðborginni, Kringlunni, Skeifuni og reyndar vestan Elliðaá og þeim mun fjölga enn á næstu árum. Á kvöldin, nóttunni og um helgar komast allir á spítalann hratt og vel hvaðan sem er. Það tekur sjúkrabíl ekki nema 10-15 mínútur að komast nánast hvaðan sem er af höfuðborgarsvæðinu á Landspítala ef lífið liggur við. Vífilsstaðir eru uppi í sveit fyrir flesta og starfsmenn munu ekki komast á staðinn nema á bíl.

Það er afar hættulegt að leggja stein í götu þessa verkefnis í þeirri von að almenningur og stjórnmálamenn sjái ekki hversu vitlaust þetta er. Það munu menn vonandi sjá þegar vitræn umræða fer í gang, sem bendir á það hvers konar rangfærslur eru í þessari grein og reyndar tveimur öðrum sem hafa komið frá Alberti Þór og Birni Bjarka upp á síðkastið.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is