Flýtilyklar
Ávarp bæjarstjórans á Akureyri
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri veitti okkur góðfúslegt leyfi til að birta hluta af erindi sem hann flutti í Hofi um helgina. Spítalinn okkar þakkar Eiríki fyrir móttökurnar og stuðninginn.
„Ég fagna stofnun landssamtaka um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala og vænti þess að með breiðum samtakamætti takist að mynda þann slagkraft sem þarf til að keyra nauðsynlega uppbyggingu í heilbrigðismálum landsmanna áfram svo sómi sé að.
Landspítalinn í Reykjavík er – og á að vera – spítali allra landsmanna.
Bráðnauðsynlegt er auðvitað að Sjúkrahúsið á Akureyri og önnur sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins standi einnig á traustum grunni og séu tæknilega vel í stakk búin til að sinna helstu læknisþjónustu – en í höfuðborginni á að vera fullkomið hátæknisjúkrahús í húsnæði sem hentar starfseminni – hátæknisjúkrahús sem þjónað getur öllum Íslendingum og öðrum þeim sem þurfa á sjúkrahúsþjónustu að halda og eru staddir hér á landi.“