„Hann er svo mikils virði fyrir skólann... “

Á málþingi Spítalans okkar sem bar yfirskriftina „Spítalinn rís“ ræddu góðir gestir mikilvægi nýbygginga fyrir starfsemi Landspítala, frá mörgum hliðum.

Páll Matthíasson forstjóri Landspítala lagði áherslu á að erfitt væri að tryggja öryggi sjúklinga í núverandi húsnæði og mikil breyting yrði til batnaðar þegar meðferðarkjarninn verður tekin í notkun. Páll ræddi einnig þá áhættu sem fylgir því fyrir sjúklinga að hafa bráðastarfsemi í tveimur húsum. Talsvert er um að flytja þurfi sjúklinga milli húsa og samkvæmt greiningu er talið að flutningar sjúklinga milli húsa fjölgi legudögum hvers sjúklings um að minnsta kosti einn legudag. Slíkt er mikið óhagræði fyrir sjúkling og veldur töfum á bata og meðferð. Páll taldi að fjölgun legadaga vegna flutninga sjúklinga samsvari rýmum í allt að 25 rúma legudeild.  

Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar flutti mjög skemmtilegt erindi sem hún kallaði „Við og spítalinn“. Þar rakti hún mikilvægi samstarfs háskóla og spítala. Hún sagði að hvor stofnun gæti ekki án hinnar verið og að alls ekki mætti færa spítalann fjarri háskólasvæðinu. Við þetta tilefni vitnaði Guðrún í Guðmund Magnússon lækni frá árinu 1899, orð sem eiga ekki síður vel við í dag:

„Spítalinn er svo ómissandi fyrir læknaskólann, að annar tilkostnaður kemur ekki að hálfum notum án hans. Hann er svo mikils virði fyrir skólann, að ég hika mér ekki við að segja, að það sé óhæfilegt að kvelja hann svona áfram án spítala, eða með þessari spítalanöfnu. Annaðhvort á að gera: koma á fót stærri og betri spítala, en nú er, eða að leggja skólann niður; en það sannast, það eru neyðarúrræði“. (Eir 1, 1899)

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala ohf. kallaði sitt erindi „Hringbrautarverkefnið á fullri ferð“. Þar rakti hann stöðuna á framkvæmdum nýbygginga Landspítala. Gunnar er bjartsýnn á framgang verkefnisins og í máli hans kom fram að hönn­un nýs meðferðar­kjarna gangi vel og að senn verði sjúkra­hót­elið tekið í notk­un. Framundan hjá NLSH er að aug­lýsa for­val á hönn­un rann­sókn­ar­húss­ins sem mun ger­breyta aðstöðu starfs­fólks og alla umgjörð rannsókna þegar starf­semi rann­sókn­ar­stofa LSH flyst á einn stað. Gunnar sagði að lokum: „Það er hug­ur í okk­ur hjá NLSH og Hring­braut­ar­verk­efnið er á fullri ferð“.

Heiða Björg Hilmisdóttir borgarfulltrúi flutti lokaorðin og ræddi meðal annars um mikilvægi þess að saman færi uppbygging íbúðabyggðar og stofnanabygginga fyrir borgarsamfélagið.

Mikil ánægja var meðal gesta málþingsins með skemmtileg og greinargóð erindi. Samtökin okkar færa ræðumönnum hjartans þakkir fyrir sitt innlegg og öllum gestum sem málþingið sóttu.

Myndir frá málþinginu má skoða á Facebook-síðu samtakanna.

 


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is