Spítalinn okkar - landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala voru stofnuð miðvikudaginn 9. apríl árið 2014. Frumkvöðull að því verki var Anna Stefánsdóttir, f.v. hjúkrunarforstjóri Landspítala og var hún formaður í 10 ár þar til hún ákvað að láta gott heita og varaformaður félagsins frá stofnun Þorkell Sigurlaugsson, tók við formennsku.
Stofnfélagar voru um 300 manns með fjölbreytta reynslu, alls staðar að á landinu en þeim hefur fjölgað verulega og eru um 800 árið 2024.
Markmið félagsins var í upphafi að auka skilning meðal almennings og stjórnvalda á nauðsynlegum úrbætum á húsakosti spítalans, að kynna fyrirliggjandi áætlanir um endurnýjun og viðbætur við húsnæði spítalans og fylgja eftir fjármögnun og framkvæmd verkefnsins. Á aðalfundi 2024 var hlutverk og markmið félagsins víkkað út og er nú "Að auka skilning og efla stuðning við uppbyggingu, aðstöðu og mönnun Landspítala í samstarfi við framkvæmdastjórn Landspítala, NLSH ohf., stjórnvöld og aðra hagaðila þannig að:
Flestum var ljós árið 2014 að brýn þörf á að hefja nýbyggingu og endurnýjun á húsakosti Landspítala. Hópur fólks úr ýmsum starfsstéttum vann að stofnun landssamtakanna sem hafa þann tilgang að berjast fyrir verkefninu undir kjörorðinu Spítalinn okkar.
Á nokkrum árum og þrotlausri vinnu fjölmargra aðila tókst að koma byggingu nýbyggingu Landspítala af stað við Hringbraut og er það trú okkar að rödd Spítalans okkar hafi þar skipt einhverju máli. Staðarvalið var ekki Spítalans okkar, en fljótlega var samt ljóst að ef ekki yrði af framkvæmdum við Hringbraut gæti tekið við margra ára óvissa um staðarval og framkvæmdir sem enginn veit hvort væru enn farnar af stað..
Rök fyrir bættu húsnæði
Fjárhagslegur ávinningur
Með sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík var stefnt að hagræðingu og uppbyggingu sjúkrahússins á einum stað svo efla mætti allt í senn lækningar, rannsóknir, þjónustu við sjúklinga og menntun heilbrigðisstarfsfólks. Fjárhagslegur ávinningur sameiningar hefur ítrekað verið staðfestur en hámarks ávinningur næst fyrst með því að starfsemin verði á einum stað í hentugu húsnæði þótt í ljós hafi komið núna að fjölgun þjóðarinnar munu eflaust kalla á frekari byggingaframkvæmdir og nýtingu á öllu því eldra húsnæði sem tiltækt er.
Tækniþróun
Þekking og húsnæði nútímalækninga fylgja tæknibreytingar og ný vinnubrögð sem krefjast meira rýmis og annars konar húsnæðis. Þörfin er einkum fyrir rannsóknaraðstöðu, stærri skurðstofur og stóraukið rými fyrir tæknibúnað til að fullnægja kröfum um loftræstingu og aðstöðu fyrir nýjustu gerð greiningartækja. Á síðustu tveimur áratugum hefur staðið yfir endurskipulagning sjúkrahúsþjónustunnar á Norðurlöndunum, m.a. í Ósló, Þrándheimi, Stokkhólmi, Uppsölum, Árósum, Óðinsvéum, Kaupmannahöfn og Þórshöfn í Færeyjum. Hér á landi hefur lítið gerst undanfarna þrjá áratugi að undaskilinni byggingu barnaspítala.
Aðbúnaður og öryggi sjúklinga
Sterk tengsl eru milli aðbúnaðar sjúklinga og árangurs í lækningum. Þar vegur þyngst bætt vígstaða gegn útbreiðslu sýkinga, friðhelgi einkalífs sjúklinga og bætt aðstaða aðstandenda. Með eðlilegum tengslum starfseininga næst bætt flæði starfsins sem fækkar mistökum og tryggir öryggi sjúklinganna betur en nú er. Margs konar nýrri tækni sem nú er staðalbúnaður á nútíma sjúkrahúsum verður engan veginn komið fyrir í gömlu byggingunum, sem auk þess eru dreifðar um borgina.
Fólksfjölgun, einkum í eldri aldurshópum
Íslendingum eldri en 60 ára fjölgar nú mjög hratt enda eldist baby boom kynslóðin óðum. Sá aldurshópur vegur langþyngst í verkefnum spítalans. Á næstu 15 árum verður fjölgun í þessum hópi um 50% eða úr 60.000 manns í 90.000 manns. Þá er fyrirsjáanleg mikil aukning viðfangsefna sem tengjast langvinnum sjúkdómum s.s. sykursýki, lungnasjúkdómum og krabbameinum en þessum sjúkdómum hefur verið jafnað við faraldur í hinum vestræna heimi. Við þetta bætist innflytjenda hingað til lands og ferðamanna sem þurfa á sjúkrahúsþjónustu að halda sem oftast er tímafrekari.