Þetta er staðan í dag

Forhönnun nýrrar sjúkrahúsbyggingar er lokið. Á grunni ítarlegrar þarfagreiningar frá 2005 og endurskoðunar hennar árið 2008 hafa öll rými og starfseiningar verið skilgreind og þeim komið í eins rökréttu samhengi og hönnuðir, erlendir ráðgjafar þeirra, ásamt fjölda hópa starfsmanna spítalans kunna best. Almenn samstaða er innan spítalans um þessa niðurstöðu.

Deiliskipulag, svæðisskipulag og aðalskipulag Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt í samræmi við fyrirætlanir spítalans og það staðfest af Skipulagsstofnun. Alþingi hefur sömuleiðis staðfest fyrir sitt leyti að ný hús Landspítala skuli rísa við Hringbraut.

Eftir umfangsmikla þarfagreiningu fór fram alþjóðleg samkeppni um hönnun á 120.000m2 húsi. Forhönnun var lokið þegar fjármálahrun stöðvaði þá vinnu árið 2008. Ákveðið var að takmarka byggingarframkvæmdir spítalans við það að hægt væri að sameina alla bráðaþjónustu ásamt þjónusturannsóknum spítalans. Eftir hönnunarsamkeppni og mikla vinnu hönnuða ásamt fjölda starfsmanna spítalans var stefnt að 77.000m2 byggingu. Forhönnun þessara bygginga lauk í árslok 2012 en lítið var aðhafst árið 2013.

Hönnun sem þessi fyrnist fljótt og þekking sem liggur til grundvallar glatast með því fólki sem að henni hefur unnið. Ekki liggja fyrir áætlanir hins opinbera hvort eða hvernig megi fjármagna framkvæmdina. Nú í ársbyrjun 2014 er því svo komið að verkefnið sýnist vera að reka upp á sker.