Konur og Landspítalinn / 1. pistill

Ingibjörg H. Bjarnason
Ingibjörg H. Bjarnason

Konur og Landspítalinn / 1. pistill

„Fyrsta málið sem vér viljum vinna að er stofnun Landspítala.“ (Ingibjörg H. Bjarnason)

Á þessu merkisári 2015 er því fagnað að 100 ár eru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Tímamótunum verður fagnað á margvíslegan hátt og samtökin Spítalinn okkar vilja gjarnan nýta tækifærið og vekja athygli á hlut kvenna í byggingarsögu spítala á Íslandi. Sá hlutur er geysistór og hefur skipt höfuðmáli í uppbyggingu heilbrigðiskerfis þjóðarinnar.

Það hefur aldrei farið hljótt um byggingu Landspítala. Hún var þrætuepli þjóðarinnar, bæði innan Alþingis sem og utan um aldamótin 1900. Barátta kvenna fyrir spítalabyggingu teygir sig aftur til ársins 1901 en þá gerðu St. Jósefssystur Alþingi tilboð um byggingu 30-40 rúma spítala í Reykjavík. Sú barátta var ekki átakalaus en fyrir tilstuðlan systranna reis Landakostspítali og var tekin í notkun 1902.

Þá taldi Alþingi að nóg væri gert í bili og að ekki þyrfti að huga meira að byggingu Landspítala. Það var svo 19. júní árið 1915 sem Alþingi samþykkti lög um stjórnarfarsleg réttindi kvenna sem veittu þeim kjörgengi og kosningarétt til jafns við karla.  Af því tilefni sáu konur ástæðu til að fagna og minnast með eftirminnilegum hætti þessum mikilvæga áfanga í sögu kvenna.  

Tvö kvenfélög í Reykjavík tóku sig saman og stefndu saman stjórnum og formönnum kvenfélaga í landinu til að ræða hvað gera ætti til að minnast þessa mikilvæga viðburðar á minnisverðan hátt. Konur frá 12 kvenfélögum mættu til fundar í húsnæði Kvennaskólans og hlýddu á framsögu Ingibjargar H. Bjarnason skólastjóra og síðar alþingismanns. Hún sagði meðal annars:

„Fyrsta málið sem vér viljum vinna að er stofnun Landspítala. Vér munum starfa að þessu á tvennan hátt: Í fyrsta lagi með sjóðsstofnun og í öðru lagi með því að beita áhrifum vorum um allt land til að berjast fyrir þessu máli og fá Alþingi og landsstjórnina til að taka málið til undirbúnings og framkvæmda“.

Ingibjörg H Bjarnason var í hópi tólf kvenna sem sömdu frumvarp er flutt var á Alþingi árið 1915 um þörfina fyrir byggingu Landspítala. Eftir að hún var kosin á þing árið 1922 varð hún einn aðaltalsmaður Landspítalamálsins eins og það var kallað. 

Í næsta pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um Landspítalasjóðinn sem konur stóðu að og margvísleg önnur meðöl sem konur notuðu í baráttu sinni fyrir byggingu Landspítala.