Konur og Landspítalinn / 3. pistill

Konur og Landspítalinn / 3. pistill
Landspítalinn risinn

Konur og Landspítalinn / 3. pistill

Kemur nú til kasta ríkisstjórnarinnar að sýna hvað hún vill fyrir málið gera“ (úr pistli í 19. júní árið 1926)

Í þriðja pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala dregur til tíðinda. Í aprílmánuði árið 1925 var þolinmæði kvenna á þrotum enda bólaði ekki á efndum yfirvalda um byggingu Landspítala. Stjórn Landspítalsjóðs boðaði því til almenns fundar í Nýja bíói þann 15. apríl þar sem ræða skyldi framkvæmdir við landspítala. Stjórn sjóðsins hafði boðið þingmönnum og ráðherrum til fundarins og það var eins og við manninn mælt: fullt var út úr dyrum á fundinum af konum jafnt sem körlum. Framsögu hafði Ingibjörg H. Bjarnason alþingismaður og ein ötulasta talskona framkvæmda við spítalabyggingu á Alþingi. Margir tóku til máls á fundinum, meðal annars Bríet Bjarnhéðinsdóttir sem stakk upp á því að Alþingi yrði aðeins haldið annað hvert ár en kostnaður við þinghald hitt árið rynni til byggingasjóðs spítalans.

Eftir fundinn í Nýja Bíói komst skriður á málið. Landspítalsjóður, sem þá hafði safnað 250.000 krónum, gerði ríkisstjórninni tilboð um fjárframlag svo hefja mætti framkvæmdir árið 1925. Læknafélag Reykjavíkur hvatti Alþingi til að taka þessu tilboði kvenna og hefja framkvæmdir. Auk þess sendi læknadeild Háskóla Íslands Alþingi álitsgerð um málið.

Á árunum 1925-1930 tóku fyrstu byggingar Landspítala að rísa. Allan þann tíma fylgdust konur vel með framkvæmdum og létu í sér heyra ef þeim fannst ríkisstjórnin ekki standa við sitt. Á þessum árum skrifuðu konur ævinlega um framkvæmdirnar og gang mála í blaðið 19. júní. Í blaðinu árið 1926 áréttuðu konur ábyrgð ríkisstjórnarinnar: „Landspítalasjóður Íslands hefur lagt fram það fé er hann hefur skuldbundið sig til að leggja fram þetta ár. Kemur nú til kasta ríkisstjórnarinnar að sýna hvað hún vill fyrir málið gera. Það væri illa farið ef nú yrði numið staðar við verkið  og það látið bíða næsta árs. Það væri þvert ofan í þann samning sem gerður var við stjórn Landspítalssjóðs“.

Konur lögðu mikið á sig við fjársöfnun til spítalabyggingarinnar en ekki síður er aðdáunarvert að lesa um einurð þeirra við að afla málinu stuðnings meðal landsmanna. Þær létu aldrei deigan síga þau 15 ár sem liðu frá Kvennaskólafundinum árið 1915 þar til byggingin var tekin í notkun í desember árið 1930. Fjársöfnun kvennanna stóð undir þriðjungi stofnkostnaðar spítalans á þeim tíma, 400.000 krónur komur úr Landspítalasjóði en stofnkostnaður nam rúmlega milljón krónum.

Hlutur kvenna í sjúkrahúsuppbyggingu Íslendinga er langtum stærri en hér hefur verið fjallað um í þremur stuttum pistlum. Það er von samtakanna Spítalans okkar að á aldarafmælisári kosningaréttar kvenna verði þessi merkilegi hlutur kvenna í uppbyggingu og framþróun heilbrigðismála Íslendinga byr í seglin fyrir uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala.

Orð Ingibjargar H. Bjarnason sem féllu árið 1923 eiga jafn vel við í dag: Þörfin kallar hærra á hverju ári.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is