Konur og Landspítalinn / 2. pistill

Konur og Landspítalinn / 2. pistill
Landspítalinn 1934

Konur og Landspítalinn / 2. pistill

„Þörfin kallar hærra með hverju ári“ (Ingibjörg H. Bjarnason)

Í öðrum pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um Landspítalasjóð. Til hans var stofnað árið 1915 og efndu konur til fjölbreyttra viðburða um allt land til að safna fé í sjóðinn. Meðal annars stóðu þær fyrir mikilli útihátíð á Austurvelli í tilefni af útgáfu fyrsta tölublaðs 19. júní árið 1917. Konur gengu fylktu liði frá skólagarðinum við tjörnina með konu í broddi fylkingar sem bar íslenska fánann. Það mun hafa verið í fyrsta sinn sem íslenski fáninn var borinn í skrúðgöngu. Í árslok 1917 höfðu safnast 45.000 krónur í sjóðinn – en næstu árin gerðist harla fátt utan vinnu við teikningar.

Konum fór að leiðast hikið á landsstjórninni og aðgerðarleysi Alþingis og árið 1923 tekur Ingibjörg H. Bjarnason málið upp í ræðustól Alþingis. Þar segir hún meðal annars: „og afskiptum íslenskra kvenna má vissulega að nokkru leiti þakka það að landspítalamálið á nú nærri óskipt fylgi allra, jafnt karla sem kvenna um land allt“.

Í ræðu sinni reifaði hún einnig kyrrláta en ötula baráttu kvenna árin áður og mikilvægi sjóðsins sem fólk af öllu landinu hafði lagt fé til fyrir þeirra tilstuðlan.   Svo segir orðrétt í ræðunni: „Ég skal í þessu sambandi taka það fram að konur ætluðu sér aldrei þá dul að reisa landspítala. Þeim var frá upphafi ljóst að það hlyti ríkissjóður að gjöra og það viðurkennir bæði þing og stjórn. En við svo búið má ekki lengur standa. Þörfin kallar hærra með hverju ári, þörfin fyrir bættum kjörum sjúklinga og þörfin fyrir betri námskjörum læknaefna“.

Eftir þetta hófu konur viðræður við landsstjórnina um að ríkið legði fé til framkvæmda á móti fé úr Landspítalasjóðnum. Konur töldu sig hafa samið um fjárframlög til byggingarinnar árið 1924 en ekki var stafkrók um framkvæmdir við landspítala að finna á fjárlögum fyrir árið 1925. Urðu það konum mikil vonbrigði og skrifuðu þær í blaðið Iðunni í febrúarmánuði það ár: „Það reyndist rétt sem oss grunaði að eigi mundi neitt gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til þess að koma byggingu landspítala á rekspöl. Fjárlagafrumvarpið nefnir hann ekki á nafn. En þó mun málið ekki dautt heldur mun það sofa, því lífsmark er með því þar sem gerð hefur verið kostnaðaráætlun og uppdrættir að sjúkrahúsi“.

Í næsta pistli um hlut kvenna í byggingarsögu Landspítala verður fjallað um borgarafund sem talskonur spítalans stóðu að og kom málinu á skrið. Svo mjög var þolinmæði þeirra á þrotum að Bríet Bjarnhéðinsdóttir lagði til að Alþingi myndi einungis starfa annað hvert ár, hitt árið rynni kostnaður við þinghald í byggingasjóð nýs Landspítala.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is