RÆÐA ÖNNU STEFÁNSDÓTTUR FORMANNS

Saga Landspítala hefur verið samtvinnuð sögu íslensku þjóðarinnar í hartnær heila öld.  Allir sjá nauðsyn þess að eiga öflugan þjóðarspítala, en samt hefur ávallt staðið styr um byggingamál hans.  Það var ekki bjart yfir í efnahagsmálum þjóðarinnar á fyrstu áratugum síðustu aldar þegar byggingu Landspítala var ýtt úr vör. Þá var djúp efnahagskreppa og fólk flutti búferlum til annara landa. Engu að síður var ljóst að byggja yrði mannsæmandi sjúkrahús fyrir landsmenn, en það var við ramman reip að draga. Þá tóku konur í landinu málið í sínar hendur og ákváðu að láta ekki deigan síga fyrr en spítalabyggingin væri komin upp. Konur af öllu landinu með Ingibjörgu H. Bjarnason, skólastjóra Kvennaskólans í Reykjavík og alþingismann í broddi fylkingar, unnu baki brotnu í 15 ár bæði við að safna fé til byggingarinnar og að tala fyrir málinu meðal almennings.

Sannfæringarkraftur þeirra var mikill. Þær töluðu á fundum, skrifuðu í blöð og fylgdu málinu eftir í sölum Alþingis - og þær náðu markmiði sínu. Ætíð síðan hafa konur lagt drjúgan skerf til bygginga á Landspítalalóðinni, síðast þegar Barnaspítalinn var byggður.

Af sögunni má að mínu mati margt læra, ekki síst það að samtakamátturinn flytur fjöll. Sameinuð getum við fengið miklu áorkað og með það að leiðarljósi ákvað talsverður hópur fólks úr ýmsum stéttum að stofna landsamtökin Spítalann okkar. Megin tilgangur landsamtakanna er að vinna að því að af áformaðri byggingu nýs húsnæðis Landspítala verði hið fyrsta. Það er nauðsynlegt til að húsakostur, tæknibúnaður og aðstaða sjúklinga og starfsfólks spítalans þjóni nútíma þörfum í heilbrigðisþjónustu.

Strax við sameiningu spítalanna í Reykjavík árið 2000 í Landspítala-háskólasjúkrahús var ljóst að byggja yrði nýtt húsnæði fyrir meginstarfsemi hans. Í raun var það ein af meginforsendum fyrir því að nokkuð góð sátt ríkti meðal fagfólks spítalanna um sameininguna. Síðan eru liðin 14 ár og ekkert bólar á byggingaframkvæmdum. Ennþá er stafsemi spítalans dreifð um borgina með tilheyrandi kostnaði og óhagræði fyrir sjúklinga og starfsfólk. Spítalinn verður aldrei samhæfð starfsheild án nýbygginga.

Á síðustu  áratugum hefur sjúkrahúsþjónusta í hinum vestræna heimi þróast hratt og tekið örum framförum. Þessi þróun mun halda áfram næstu áratugi. Að sama skapi tekur sérþekking heilbrigðisstarfsmanna miklum framförum og meðferð sjúkdóma verður tæknivæddari og flóknari. Ávinningurinn er að fleiri sjúklingar fá bót sinna meina. Nýbygging meðferðarkjarna Landspítala er undirstaða þess að Íslendingar haldi stöðu sinni meðal fremstu þjóða hvað heilbrigðisþjónustu varðar.

Góðir fundarmenn.

Í 12 ár hafa nefndir greint þörfina fyrir nýbyggingar Landspítala og efnt var til hönnunarsamkeppi um hönnun bygginganna og skipulag lóðarinnar við Hringbraut. Starfsfólk Landspítala hefur unnið feiknamikið starf með hönnuðum að þarfagreiningu fyrir starfsemi í nútíð og framtíð, ferðir hafa verið farnar til annarra landa til að kynna sér það nýjasta í spítalabyggingum, ráðgjafar hafa verið fengnir til landsins og niðurstöður rannsókna verið metnar. Nú liggur forhönnun bygginganna fyrir og almenn samstaða er innan spítalans um niðurstöðu hennar.

Deiliskipulag, svæðisskipulag og aðalskipulag Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt í samræmi við fyrirætlanir spítalans og það staðfest af Skipulagsstofnun. Alþingi hefur sömuleiðis staðfest fyrir sitt leyti að ný hús Landspítala skuli rísa við Hringbraut. 

Það er ekki er eftir neinu að bíða með að halda verkefninu áfram, það er að hefja fullnaðarhönnun og byrja framkvæmir.

Síðastliðið eitt og hálft ár hefur lítið sem ekkert heyrst um byggingaframkvæmir Landspítala, það er langur og dýrmætur tími. Okkur fannst að verkefnið væri að reka upp á sker. Stofnfélögum í landsamtökunum Spítalinn okkar er ljóst að vinna þarf bráðan bug á úrbótum í húsnæðismálum spítalans. Því setti Spítalinn okkar sér það markmið að auka stuðning og skilning meðal almennings, stjórnvalda og fjárfesta á nauðsynlegri uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala, ásamt því að sjá til þess að fyrir liggi valkostir í fjármögnun og framkvæmd verkefnisins.

Við lítum þannig á að ýmsir valkostir séu færir við að fjármagna verkefni sem þetta, en eitt mikilvægasta málefni Spítalans okkar er að benda á fjármögnunarleiðir. Verkefnahópur um fjármögnun byggingarinnar, sem stjórn hefur sett saman og vinnur á ábyrgð hennar, hefur það að markmiði að setja fram raunhæfar leiðir til að fjármagna nýbygginguna. Okkur hefur komið skemmtilega á óvart hvað margir stofnfélagar hafa áhuga á þátttöku í verkefnahópnum um fjármögnun byggingarinnar og sýnir að okkar mati að fólk sér ýmsar leiðir í þeim efnum og vill leggja sitt að mörkum til að samstaða náist um fjármögnunarleiðir. 

Stóra verkefnið er að ryðja hindrunum úr vegi svo hefjast megi handa um endurnýjun húsakosts Landspítala, sem er eitt mikilvægasta verkefni íslensks samfélags í dag.

Umtalsverður ávinningur er af nýbyggingum Landspítala eins og fram kom í máli starfsmanna Landspítala hér á fundinum. Allra mestur er þó ávinningurinn af sameiningu bráðstarfseminnar í einn meðferðarkjarna. Við það næst mikil rekstrarleg hagræðing.

Ávinningurinn er einnig mikill fyrir sjúklinga og starfsmenn. Allur aðbúnaður sjúklingar batnar til muna, óhætt er að segja að straumhvörf verði á aðbúnaði þeirra þegar starfsemin verður flutt úr húsum sem er 50-80 ára gömul. Þá er ekki síður mikilvægur ávinningur fyrir sjúklinga að megin starfsemi spítalans verður á einum stað þar sem allar sérgreinar verða saman og sjúklingar þurfa ekki að fara  milli húsa við erfiðar aðstæður. Rannsóknir hafa sýnt að með bættum aðbúnaði sjúklinga, svo sem með einbýlum, styttist legutími, spítalasýkingum fækkar og öryggi í meðferð eykst. Það segir sig sjálft að slíkt er mikilsvert fyrir sjúklinga. 

Nýjungar í greiningu og meðferð sjúkdóma sem ekki er unnt að veita í dag hér á landi verða að veruleika í nýjum meðferðarkjarna, með nýjum tækjum sem ekki er unnt að koma fyrir í gömlu húsunum. Má þar nefna svokallað PET-scan. Slík tækni hefur verið til á stærri háskólasjúkrahúsum til margra ára og er nú til á flestum stærri sjúkrahúsum á Norðurlöndum. Mikilvægasta notkun þess er við greiningu og meðferð krabbameina sem verður mun markvissari en ella, en í auknum mæli einnig vegna sjúkdóma í miðtaugakerfi og hjartasjúkdóma. Einnig má nefna nýja tækni við skurðaðgerðir sem styttir verulega legutíma og er til mikilla þæginda fyrir sjúklinga. Tækninni verður ekki við komið án nýbygginga Landspítala.

Ávinningur fyrir starfsmenn er ekki síður mikilvægur. Landspítali þarf að vera eftirsóknarverður vinnustaður sem stenst samburð við það sem gerist í nágrannalöndunum. Það er lykilforsenda þess að ungir og vel menntaðir heilbrigðisstarfsmenn skili sé heim að loknu framhaldsnámi í þessum löndum. Ungt fólk og vel menntað fólk eru starfsmenn framtíðarinnar, hún er vægst sagt ekki björt fyrir heilbrigðisþjónustu ef það ílengist erlendis að loknu framhaldsnámi. Við megum í raun engan tíma missa í þessu tilliti því hár meðalaldur í sumum greinum heilbrigðisstétta er verulegt áhyggjuefni og lítil endurnýjun hefur verið síðastliðin ár. Ungt fólk bíður með að flytja heim meðan ekkert fréttist af nýbyggingu Landspítala.

Samtökin Spítalinn okkar opna vefsíðu á næstu dögum sem finna má á slóðinni, www.spítalinnokkar.is.  Á síðunni er hægt að skrá sig í landsamtökin á einfaldan hátt. Við hvetjum alla til að skoða síðuna. Einnig er Spítalinn okkar með fésbókarsíðu.  

Góðir fundarmenn.

Stofnfélagar í landssamtökunum Spítalinn okkar eru sammála um að við getum ekki látið það gerast að verkefni sem nútíma heilbrigðisþjónusta byggir á verði ekki að veruleika. Okkar markmið er að um þetta sjónarmið skapist þjóðarsátt og að leitað verði  allra leiða til að koma nýbyggingu og endurnýjun á húsnæði Landspítala áfram.  Við getum fengið miklu áorkað og áhugi á verkefninu er mikill, það sést á þeim viðbrögðum sem stofnun samtakanna hefur fengið.

Öll eigum við og okkar fólk, aldrað, ungt og ófætt, eftir að þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda sem við í krafti samstöðu viljum berjast fyrir að færa til nútímans. Tökum á og sýnum hugkvæmni og kraft því mikið liggur við og tíminn er að hlaupa frá okkur.


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is