Flýtilyklar
Klárum uppbyggingu við Hringbraut sem fyrst
Greinin er hér í fullri lengd:
Endurteknar rangfærslur um byggingu Landspítala við Hringbraut
Þann 24. mars sl. birtist grein í Morgunblaðinu eftir Önnu Kolbrúnu Árnadóttur og Viðar Frey Guðmundsson frambjóðendur Miðflokksins undir undir nafninu, „Hugsum lengra en Hringbraut“. Enn og aftur þarf að leiðrétta rangfærslur um staðarval Landspítala og í þessu tilfelli er framkvæmdum í Danmörku blandað af vanþekkingu inn í málið.
Rangar ályktanir um staðarvalsgreiningar
Í greininni eru dregnar rangar ályktanir af staðarvalsvinnu um nýjan Landspítala. Rökstuðningur Önnur og Viðars byggir m.a. á að Ementor skýrsla, frá árinu 2001 hafi mælt með byggingu nýs spítala frá grunni á nýjum stað, en henni hafi svo verið stungið undir stól. Þetta er rangt. Aðalverkefni Ementor snérist ekki um staðarval á nýjum Landspítala heldur að innviðum og vinnuferlum spítalans og sú vinna nýttist vel. Í lok skýrslunnar var Fossvogur ráðlagður sem vænlegri byggingarstaður, „ef ekki ætti að byggja nýjan spítala á nýjum stað“. Ekkert val eða mat fór fram hjá þeim á hagkvæmni þess að byggja á nýjum stað. Ementorskýrslan fullyrti ekkert um að betra væri að byggja á nýjum stað frá grunni, eins og Hilmar Þór Björnsson, arkitekt gefur í skyn grein þann 19.4. Um það lögðu þeir ekkert mat, enda hefði það kallað á ítarlega skoðun, en gáfu vissulega til kynna að byggja mætti nýjan spítala við Hringbraut.
White arkitektar unnu um svipað leiti ítarlega úttekt á staðarvali við Vífilstaði, í Fossvogi og Hringbraut. Niðurstaða þeirra var sú að Hringbraut væri ákjósanlegasti staðurinn. White arkitektar greindu staðina þrjá með tilliti til kosta og galla hverrar staðsetningar, en Vífilstaðir voru að þeirra mati versti kosturinn.
Hvað getum við lært af Dönum?
Í grein þeirra Önnu og Viðars er staðhæft að verið sé að byggja hátt í 30 spítala í Danmörku og flestir séu reistir í útjaðri byggðar. Þetta er rangt. Flestar framkvæmdanna eru misstórar viðbyggingar við núverandi spítala, en sex verkefni eru nýbyggingar. Hér að neðan eru nánari upplýsingar um þá spítala sem byggðir eru frá grunni á nýjum stað og hver reynsla Dana er af þessum nýbyggingarverkefnum eftir að maður kynnti sér það sérstaklega.
- Nýi spítalinn í Hilleröd hefur ítrekað farið fram úr fjárhagsáætlunum. Ákveðið að fara í nýbyggingu árið 2007. Byggingarmagn og sjúkrarými skorið niður og afhendingu spítalans seinkað um 2-3 ár og verður 2022, 15 árum eftir að ákvörðun er tekin.
- Nýi háskólaspítalinn í Köge er að stærstum hluta nýbygging: Ráðgjafa-/arkitektafyrirtækið C.F Möller og Ramböll ráðgjafaverkfræðingar voru reknir frá verkinu 2017 vegna þess að fyrsti hluta spítalaverkefnisins var kominn marga milljarða íslenskra króna fram úr áætlunum. Framkvæmdum á 110.000 fermetrum átti að vera lokið 2023, en mun seinka til 2024 vegna nýs útboðs sem fór fram í september 2017. Samtals 14-16 ár frá ákvörðun.
- Nýi spítalinn í Gödstrup: Plan frá 2007. Áætlun um afhendingu 2017 stóðst ekki fremur en kostnaðaráætlanir; útboðsgögnum hefur seinkað og lengja þarf byggingartíma til að draga úr kostnaði. Endurskoðuð áætlun miðar við að fyrsti hluti spítalabyggingarinnar verði afhentur 2020. Samtals verður byggingatími 13 ár.
- Nýi háskólaspítalinn í Aarhus, Skejby: Ákveðið að byggja árið 2005. Fjárhagsáætlanir hafa ekki staðist; byggingarmagn skrifstofuhúsnæðis skorið niður í kjölfarið. Innleiðing á starfsemi bráðamóttökunnar seinkaði um ár og veruleg mistök við uppsetningu pípulagna hafa leitt af sér miklar rakaskemmdir. Fyrsta lagi tilbúinn 2019. 14 ára byggingatími.
- Nýi háskólaspítalinn í Odense: Það var ákveðið 2008 að byggja háskólaspítalann á auðu svæði við hliðina á Syddansk háskólanum og planlögðum Cortex park vísindagörðum. Útboð fer fram 2010 og 2011. Búið að seinka byggingunni um tvö ár frá upphaflegri áætlun. Kostnaðaráætlun um 100 milljarðar króna, en hefur reynst mörgum milljörðum hærri en upphafleg fjárhagsáætlun. Byggingarframkvæmdir skornar niður og sveitarfélagið tók á sig 7 milljarða til að hægt yrði að halda áfram. Áætluð afhending 2022, 14 árum eftir ákvörðun.
- Nýi háskólaspítalinn í Álaborg: Ákveðið 2009. Fjárhagsáætlanir stóðust ekki. Því var m.a. ákveðið að sleppa byggingu „foreldrahótels“ og minnka sjúkrahótelið. Áætluð afhending 2020. Samtals 11-13 ára framkvæmdatími.
Meðal fjölmargra viðbygginga við spítala í Danmörku má nefna að í Viborg er verið að byggja um 32.000 m2 viðbyggingu við sjúkrahúsið, framkvæmdatíminn 11 ár, frá 2009 – 2020 og einnig er verið að byggja við Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Það verk hefur gengið ágætlega.
Hver eru þá skilaboðin? Það er mjög víða verið að byggja við spítala sem oft hefur reynst ágætlega, en mun sjaldnar eru byggðir spítalar frá grunni á nýjum stöðum. Þegar byggðir eru spítalar frá grunni, af svipaðri stærð og Landspítalinn fullbyggður, tekur slík framkvæmd yfirleitt 12-14 ár. Þegar Danir byggja spítala frá grunni, er ekki reynt að eltast við einhvern miðjustað borgarsvæðisins. Það álíta aftur á móti margir Hringbrautarandstæðingar afar mikilvægt atriði, en að sjálfsögðu koma mörg önnur atriði til skoðunar.
Stærri verkefni kalla almennt á meiri seinkanir og framúrkeyrslu í kostnaði. Hér á landi má búast við mun meiri seinkunum og framúrkeyrslu kostnaðar við helmingi stærri framkvæmd en nú er í gangi eða um 140.000 fermetra nýbyggingu. Byggingartími yrði að lágmarki 12 ár til viðbótar við langan undirbúningstíma við aðal- og deiliskipulagsbreytingar, umhverfismat, umferðatengingar, þarfagreiningu byggingarinnar innanhúss, útboð, hönnun o.fl. sem getur auðveldlega tekið 10 ár. Nýr spítali í fyrsta lagi tilbúinn í kringum 2035 og jafnvel ekki fyrr en 2040, vonandi a.m.k. fyrir 100 ára afmæli lýðveldisins.
Frá 2002 hefur verið miðað við áframhaldandi uppbyggingu við Hringbraut. Aðalskipulagi og deiliskipulagi við Hringbraut var breytt í kjölfar skipulagssamkeppni sem fram fór árið 2005; unnin var ítarleg þarfagreining og haldin alþjóðleg samkeppni í kjölfar hæfnisvals um forhönnun spítalans árið 2010. Fullnaðarhönnun sem boðin var út og er nú vel á veg komin; útboð framkvæmda við jarðvinnu og innviði verður boðin út í sumar og í kjölfarið bygging meðferðarkjarnans. Alþingi hefur samþykkt fjármögnun og að stöðva hana og ætlað að setja aðra og stærri í gang síðar er algjörlega óábyrgt.
Krafa okkar Reykvíkinga ætti að vera skýr: Klára uppbyggingu við Hringbraut sem fyrst
Reykvíkingar eiga að gera þá kröfu að ríkið klári hratt og vel uppbyggingu spítalans. Frambjóðendur til borgarstjórnar eiga ekki að gefa ríkisstjórninni neinn afslátt af því að klára núverandi uppbygginu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss árin 2023/2024 og algjörlega ábyrgðarlaust að tefja málið. Slíkt er eingöngu til þess ætluð að vinna hylli óánægða íbúa með einhverri draumsýn. Staðarval fyrir annan spítala á öðrum stað er aftur á móti eðlilegt og tímabært verkefni sem Reykjavíkurborg á að hafa strax frumkvæði að með framtíðarþarfir í huga. Sá spítali, austar í borginni, hefði annað hlutverk en bráðasjúkrahús/háskólasjúkrahús. Keldnalandið kæmi þar augljóslega vel til greina ásamt íbúabyggð. Eitt sjúkrahús á Íslandi er ekki nóg, - er óöruggt fyrir eyland þekkt af náttúruhamförum og óásættanlegt fyrir sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólk sem eini valkosturinn.
Sú aðferðafræði sumra [stjórnmálamanna], að forðast staðreyndir og vandaða greiningu, en höfða frekar til tilfinninga fólks, er ekki ábyrg pólitík. Vandamálið er ekki staðsetning Landspítala heldur þarf að ráðast í nauðsynlegar úrbætur samgöngumála í höfuðborginni, ekki fyrir Landspítala heldur fyrir okkur öll. Þar þarf ný borgarstjórn að taka til hendinni.
thorkellsig@gmail.com