Enn um staðarvalið og umsagnir um þingsályktunartillögu

Enn um staðarvalið og umsagnir um þingsályktunartillögu
Sannleikurinn um staðarvalið við Hringbraut

Í greininni kemur fram hversu ítarleg vinnan hefur verið við þarfagreiningu og staðarval uppbyggingar Landspítala við Hringbraut. Greinin fer hér á eftir í heild sinni:

Sannleikurinn um staðarval Landspítala við Hringbraut

Nokkrir félagar í samtökunum „Betri spítala á betri stað“ (BSBS) halda áfram að fara með fleipur og afvegaleiða lesendur varðandi staðarval Landspítala við Hringbraut. Fimm þeirra buðu sig fram til þess þann 6. mars síðastliðinn með því að skrifa sig fyrir grein í Morgunblaðið.

Ementor var ekki falið að meta sjálfstætt nýjan stað undir Landspítala

Greinarhöfundar fjalla um svokallaða Ementor skýrslu frá 2001 og ég hafi brenglað tilvitnunum, sem er af og frá. Ementor ráðgjafar voru fengnir til að gera þarfagreiningu/þróunarplan (Functional Deveopement Plan) varðandi innviði spítalans,
þjónustu, mönnun, rýmisþörf fyrir einstaka deilir. Vinna þeirra var ítarleg og tók um það bil eitt ár, en ekki var til þess ætlast að þeir gerðu ítarlega úttekt eða ynnu staðarvalsgreiningu fyrir nýjan Landspítala. Fyrir utan tölulegar niðurstöður um framtíðarþörf á stækkun spítalans var niðurstaða Ementor varðandi uppbyggingu og staðsetningu að ef ekki værivalkostur að byggja alveg nýjan spítala, væri Fossvogur besti kosturinn. Þetta innskot „fimmmenninga“ [frá grunni á nýjum stað af fjárhagslegum ástæðum] var ekkert tengt niðurstöðu Ementor. Þeir staðhæfðu aldrei að það væru bara kostir við að að byggja á einhverjum nýjum stað og fóru aldrei í að greina það.

Búið að ákveða oft Hringbraut sem framtíðarstað Landspítala háskólasjúkrahúss

Svo er látið eins og ekkert hafi verið metið varðandi Hringbraut og ekkert horft til breytinga frá aldamótum. Að sjálfsögðu var það gert og ávallt Hringbraut í hag:

Sænska fyrirtækið White arkitektar skiluðu ítarlegri greiningu á mögulegri uppbygginu á mismunandi stöðum í desember 2001. Sú greining var alls ekki sett til höfuðs Ementor eins og fullyrt var af fimmmenningum. Skýrsla White arkitekta byggði hins vegar á þeirri miklu vinnu sem Ementor hafði unnið um tölulegar stærðir varðandi framtíðaruppbyggingu spítalans. Valkostir uppbyggingar voru betur metnir. Þá má segja að Vífilstaðir hafi endanlega verið teknir út af borðinu m.a. annars vegna fjarlægðar frá Háskólanum. Bæði Ementor og White arkitektar líta á fjarlægð spítala frá háskólanum sem einn af meginþáttum í ákvarðanatöku um staðsetningu spítalans þvert á skoðanir SBSBS.

2002 skilaði nefnd á vegum ráðherra ítarlegu mati á valkostum og gerði í samráði við fjölda aðila ákveðna staðarvalsgreiningu. M.a. kynntu White og Ementor sínar niðurstöður fyrir nefndinni. Niðurstaðan var sú, eftir að hafa vegið og metið staðarvalið vandlega, að Hringbraut væri framtíðarstaðurinn fyrir spítalann.

2003 ákváðu stjórnvöld að byggt yrði við Hringbraut og gengið var frá samningum milli ríkis og Reykjavíkurborgar.

2004 var vann nefnd á vegum ráðherra áfram áætlun um verkefnið og ákveðið var í framhaldi af því að fara í hönnunarsamkeppni og síðan þá hefur verið unnið að verkefninu með slæmum töfum eftir bankahrunið.

2008 var verkefnið aftur metið af sérstakri nefnd um fasteignir og nýbyggingu heilbrigðisstofnana og einnig af Framkvæmdasýslu ríkisins og verkefnið talið í góðum fagmannlegum undirbúningi við Hringbraut.

2009, voru norskir sérfræðingar Momentum fengnir til að meta framvindu verkefnisins áfram og lögðu þá til þann uppbyggingaráfanga sem nú er í farvegi með byggingu meðferðarkjarna og rannsóknarhúss við Hringbraut.

2011 mátu ráðgjafarnir Hospitalitet áætlaðan rekstrarsparnað við að sameina kjarnastarfsemi Landspítala við Hringbraut og var sá sparnaður áætlaður 3 milljarðar á ári.

Verkefnið var enn metið af Hagfræðistofnun árið 2015 og af KPMG sama ár. Alltaf var niðurstaðan sú sama. Áfram Hringbraut!

Gagnslausir útreikningar Samtaka um betri spítala á betri stað

Síðan 2015 hafa BSBS samtökin rekið áróður á grunni skýrslu með útreikningum sem standast enga faglega skoðun og hafa verið hraktir aftur og aftur. Krafan um einhvers konar „óháða og faglega staðarvalsgreiningu“ er m.a. byggð á skýrslu samtakanna um milljarða ávinning af nýjum spítala á einhverjum nýjum stað. BSBS samtökin fóðra svo nokkra þingmenn með efni til að leggja fram þingsályktunartillögu, sem ætlað er að nota til heimabrúks í kosningabaráttunni. Átta skiluðu umsögn við þá þingsályktun þann 2. mars, allar hliðhollar Hringbraut að undanskildum tveimur, frá BSBS og einum félaga samtakanna.

Nokkur dæmi:

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) telur að bygging nýs Landspítala þoli enga bið. Því er það mat Fíh að halda skuli áfram með fyrirhugaða byggingu Landspítala við Hringbraut.

Viðhorf Háskóla Íslands er afdráttarlaust með uppbyggingu við Hringbraut og færð mjög sterk rök fyrir því í umsögn háskólarektors.

Landlæknir segir byggingu nýs háskólasjúkrahúss löngu orðna aðkallandi og hefur þegar tafist úr hófi og segir: „Að byrja nú enn einu sinni á því að fá erlenda og innlenda aðila til að velja nýju háskólasjúkrahúsi stað og skila skýrslu eftir rúma tvo mánuði er nánast þess eðlis að maður veltir því fyrir sér hvort flutningsmönnum sé alvara“.

Landsamtökin Spítalinn okkar vilja skapa samstöðu um Hringbrautarverkefnið og engar frekari tafir verði liðnar. Biðtími er þegar orðinn allt of langur.

Ábyrga og raunhæfa framtíðarsýn, en ekki lýðskrum og rangfærslur

SBSB menn láta þess réttilega getið að ég sé í Sjálfstæðisflokknum og sá flokkur hefur, eins og nánast allir stjórnmálaflokkar undanfarin ár, tekið málefnalega og faglega á þessu verkefni þótt hraðinn hefði mátt vera meiri. Það sem er í drögum að ályktun Landsfundar Sjálfstæðisflokksins um næstu helgi, er að auk þess að ljúka uppbyggingu Landspítala háskólasjúkrahúss við Hringbraut skuli strax hugað að staðarvali fyrir byggingu annars spítala á nýjum stað með breyttu rekstrarformi og
rekstraráherslum en háskólasjúkrahúsið.

Vonandi fara stjórnvöld og borgaryfirvöld að horfa til lengri tíma og móta heilbrigðisstefnu til framtíðar. Það væri í anda þess sem Landspítali leggur einnig til orðrétt í sinni umsögn, „Landspítali styður eindregið að á næstu árum fari fram vönduð staðarvalsgreining fyrir næstu kynslóð spítala sem byggður verður eftir nokkra áratugi. Mikilvægt er að taka frá hentuga lóð fyrir framtíðarþróun heilbrigðiskerfisins til lengri tíma. Slík greining má alls ekki trufla né tefja núverandi uppbyggingu við Hringbraut.“

Þjóðarsjúkrahúsinu og núverandi uppbyggingu þess við Hringbraut á ekki að fórna fyrir óvandaða, óraunhæfa draumsýn sem er notuð sem pólitískur poppúlismi.

Þorkell Sigurlaugsson
thorkellsig@gmail.com


Svæði

SPÍTALINN OKKAR

Landssamtök um uppbyggingu nýs húsnæðis Landspítala
spitalinnokkar@spitalinnokkar.is