Flýtilyklar
Bráðadeild, bráðalegudeild og gjörgæsla verður ekki aðskilin frá kjarnastarfsemi spítala
Greinin fer hér orðrétt, en hún birtist í Morgunblaðinu 26. október 2016.
Lilja Alfreðsdóttir ekki trúverðug í Landspítalamálinu
Í viðtali við Lilju Alfreðsdóttur í laugardagsblaði Morgunblaðsins lýsir hún því að einhverjir sérfróðir menn telji að uppbygging nýs Landspítala í útjaðri borgarinnar, t.d. Vífilsstöðum muni taka skemmri tíma. Vífilsstaðir í útjaðri höfuðborgarsvæðisins er allt í einu orðinn draumastaðurinn, en ekki miðja höfuðborgarsvæðisins. Rökin eru þau að gott sé að hafa náttúrulegt umhverfi og friðsæld og þar sé hægt að byggja hátt upp í loftið.
Lilja talar um að ákveðin starfsemi verði auðvitað áfram við Hringbraut og m.a. eigi bráðadeildin að vera þar! Síðan hvenær getur það verið skynsamlegt að aðskilja bráðadeild, bráðalegudeild og gjörgæslu frá aðalstarfsemi spítalans? Hvað á að vera á Vífilstöðum? Lilja talar um mikilvægi flugvallarins einmitt af því að bráðadeildin eigi að vera við Hringbraut. Lilja ætti að kynna sér betur rekstur sjúkrahúsa. Starfsemin er teymisvinna og ákveðið flæði. Sérfræðilæknar og hjúkrunarstarfsfólk styður við hvort annað og sjúklingar verða ekki fluttir frá bráðamóttöku Hringbrautar og á Vífilsstaði í skurðaðgerð. Nógu erfitt er að koma þeim á milli Fossvogsspítala og Hringbrautar.
Lilja ætti að vita að við Hringbraut er háskólasjúkrahús og þar ætlar Háskóli Íslands að byggja heilbrigðisvísindasvið háskólans tengt Læknagarði, en ekki á Vífilsstöðum. Landspítalinn er stærsta kennsluhúsnæði Háskóla Íslands fyrir fjölda greina heilbrigðisvísinda. Ráðgjafarnir hafa heldur ekki bent Lilju á að stærstu atvinnusvæðin eru vestan Elliðaáa og fólk veikist ekki bara heima hjá sér í svefni í útjaðri höfuðborgarsvæðisins.
Lilja ætti að vita að ef „flytja á Landspítalann“ þarf að gera breytingu á svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins, aðalskipulagi og deiliskipulagi viðkomandi sveitarfélags og vinna allt upp á nýtt með hagsmunaðilum. Það þurfa öll sveitarfélögin að samþykkja breytingu á svæðaskipulagi höfuðborgarsvæðisins og spítalinn við Hringbraut verður ekkert fluttur annað með einhverju valdboði stjórnvalda. Það þarf að fara í gegnum allt ferlið upp á nýtt, frumhönnun á nýjum stað, þarfagreiningu, niðurröðun deilda og hönnun á öllu þjóðarsjúkrahúsinu, 130.000 fermetra byggingu.
Lilja veit að Alþingi þarf að samþykkja og fjármagna flutninginn og það verður augljóslega ekki gert þar sem enginn annarra stjórnmálaflokka en Framsókn er með þessa furðulegu og óábyrgu stefnu. Í stað 2023 yrði nýr spítali á nýjum stað tilbúinn einhvern tíma í kringum 2035 ef bygging hans mundi ekki stöðvast einhvern tíma á leiðinni eins og Hús íslenskra fræða sem fékk heitið „Hola íslenskra fræða“. Þangað til verður þjóðin með tvær ófullnægjandi sjúkrahúsbyggingar í rekstri og eina risastóra í byggingu.
Það tók 14 ár að byggja Þjóðarbókhlöðuna sem er 14.000 fermetra bygging. Bækurnar þoldu biðina og handritin eru orðin vön að bíða enda langlíf, en Íslendingar og íslenskir sjúklingar geta ekki beðið endalaust.
Lilja hefur greinilega ekki kynnt sér að samkvæmt nýlegu mati Framkvæmdasýslu ríkisins og Skipulagsstofnunar er áætlað að afhending spítalans myndi tefjast um 10-15 ár ef byggt er á öðrum stað. Kristján Þór, heilbrigðisráðherra kynnti þetta á Alþingi í september í þingskjali 1394 – 800.
Að bjóða þjóðinni upp á þá skoðun að fljótlegra sé að byggja nýjan Landspítala annars staðar en við Hringbraut er ábyrgðarlaust og í andstöðu við heilbrigða skynsemi og hagsmuni heilbrigðiskerfisins á Íslandi. Nær væri að horfa til þess að hraða þessum hóflegu byggingarframkvæmdum við Hringbraut sem aðallega eru í tveimur byggingum, meðferðarkjarnanum og rannsóknarhúsinu.
Þessi umræða og gyllboð frambjóðenda Framsóknarflokksins eru eingöngu til þess fallinn að blekkja almenning á lokametrum kosningabaráttu Framsóknarflokksins. Það mun ekki takast.